Ný gjaldskrá Strætó, sem felur í sér 12,5% hækkun, tekur gildi á laugardaginn. Gjaldskrárhækkunin var samþykkt á fundi stjórnar félagsins 16. september síðastliðinn. Þetta kemur fram á vef Strætó.

Stök fargjöld og tímabilskort munu öll taka sömu verðbreytingu. Stakt fargjald hækkar til að mynda úr 490 krónum upp í 550 krónur og 30 daga nemakort hækkar um 500 krónur, eða úr 4.000 krónum í 4.500 krónur. Fyrir ákvörðunina um að hækka fargjöld hafði gjaldskráin verið óbreytt frá því um áramótin 2020/2021.

Í tilkynningu Strætó vegna gjaldskrárhækkunarinnar kemur fram að henni sé ætlað að mæta almennum kostnaðarverðshækkunum á aðföngum Strætó, svo sem olíuverðshækkunum. Olíuverð hafi hækkað um tæplega 40% frá áramótum. Þá sé verðhækkunum einnig ætlað að vega upp á móti kostnaði vegna vinnutímastyttingar, sem hafi haft veruleg áhrif á reksturinn. „Áhrifa heimsfaraldurs COVID gætir enn í rekstrinum og útlit fyrir að uppsöfnuð áhrif á tekjur séu á bilinu 1500 m.kr. til 2000 m.kr. Áhrifa hækkandi aðfangaverðs og lægri tekna má sjá í árshlutauppgjöri Strætó fyrir janúar til júní 2022,“ segir í tilkynningunni.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði nýverið ítarlega um er rekstur Strætó þungur. Strætó þarfnast eins og hálfs milljarðs króna framlags frá eigendum sínum, sem eru sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, til að mæta rekstrarvanda og bágri fjárhagsstöðu félagsins.