Stjórnendur Strætó hafa ákveðið að hætta að taka við reiðufé í vögnum sínum á næstunni þegar snertilausar greiðslur verða komnar í fulla virkni. Þetta kemur fram í fundargerð félagsins frá 13. nóvember sl.

Frá byrjun október hefur verið í boði að greiða fargjöld í strætisvögnum með snertilausum greiðslum. Þjónustan hefur þó ekki enn verið formlega auglýst þar sem hún er nú í lokaprófunum.

„Frá árinu 2015 hefur notkun reiðufjár í strætisvögnum dregist saman um 58%. Með innleiðingu snertilausra greiðslumöguleika er gert ráð fyrir enn frekari samdrætti í reiðufjárnotkun,“ segir í fundargerð.

Þar segir einnig að umsýsla tengd núverandi reiðufjárlausnum sé kostnaðarsöm þar sem hún krefst viðhalds á sérhönnuðum baukum sem eru orðnir bæði gamlir og úreltir.

Samhliða því verður unnið að því að auka aðgengi að farmiðum með því að koma þeim í sölu á fleiri stöðum til að tryggja að breytingin hafi sem minnst áhrif á notendur.

„Stjórnendum hefur verið falið að útbúa minnisblað þar sem lagt er fram hvernig hægt er að útfæra þessa breytingu á sem áhrifaríkasta og notendavænstan hátt, með það að markmiði að lágmarka áhrifin á viðskiptavini.“