Strætó undirritaði í gær nýja samninga við Hagvagna og Kynnisferðir um akstur strætisvagna. Þann 29. apríl síðastliðinn ákvað stjórn Strætó að ganga til samninga við þessi fyrirtæki þar sem þau buðu lægst í verkið og skiluðu inn lokatilboðum.
Í tilkynningu á vef Strætó segir að með samningunum sé stigið stórt skref í átt að kolefnislausum flota Strætó, sem inniheldur 70 vagna, árið 2030. Gerðar voru kröfur í útboðinu um að vagnafloti akstursaðila verði orðinn kolefnislaus í lok árs 2029.
„Við hjá Strætó erum mjög ánægð með þennan samning sem styður okkar markmið um kolefnislausan flota,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. „Við höfum þegar fest kaup á níu rafvögnum og er samningurinn annað skref í átt að þessu mikilvæga markmiði.“
Kynnisferðir kaupa 40 nýja strætisvagna
Kynnisferðir taka að sér akstur 10 strætóleiða á höfuðborgarsvæðinu en áður hafði fyrirtækið séð um þjónustu á 11 leiðum.
Samhliða nýjum samningi hafa Kynnisferðir fest kaup á 40 nýjum Iveco strætisvögnum frá BL sem teknir verða í notkun á næstu vikum, að því er segir í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag.
Um er að ræða dísilvagna með nýjustu mengunarkröfum en miklar framfarir hafa orðið í mengunarbúnaði dísilbíla á síðustu árum. Einnig eru þessir nýju vagnar með sérstökum öryggiskerfum sem auka öryggi vegfaranda í kringum vagnana.
„Við erum á fullu að undirbúa rafvæðingu flotans okkar en slík umbreyting krefst mikils undirbúnings varðandi vagnana sjálfa, hleðsluinnviði og skipulag. Í lok næsta árs reiknum við með að taka í notkun fyrstu rafmagnsvagnana í þetta verkefni og í lok árs 2029 mun allur strætóflotinn okkar verða orðinn rafknúinn,“ segir Björn Ragnarsson forstjóri Kynnisferða.
„Við höfum á síðustu árum verið taka í notkun rafmagnsbíla í okkar flota og sjáum mikil tækifæri í rafvæðingu okkar ökutækja. Með þessum nýja samningi við Strætó hvetur það okkur enn frekar til að halda áfram á þeirri braut.“
