Strætó bs. var rekið með 374 milljóna króna tapi á árinu 2023 samanborið við 834 milljóna tap árið áður. Eigið fé Strætós var neikvætt um 364 milljónir króna í árslok 2023, samkvæmt ársreikningi félagsins.

Rekstrartekjur Strætós námu 11,1 milljarði og jukust um 16% frá fyrra ári. Þar af voru tekjur af fargjöldum um 2.047 milljónir sem er 18% aukning milli ára, auk þess að vera yfir áætlun.

„Nokkur viðsnúningur var í rekstri Strætó milli ára en kostnaðarverðshækkanir, olíuverðs- og launahækkanir hafa haft gríðarleg fjárhagsleg áhrif á starfsemi samlagsins síðustu ár og hefur fjárhagsstaða Strætó rýrnað verulega,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningnum.

Strætó bs. var rekið með 374 milljóna króna tapi á árinu 2023 samanborið við 834 milljóna tap árið áður. Eigið fé Strætós var neikvætt um 364 milljónir króna í árslok 2023, samkvæmt ársreikningi félagsins.

Rekstrartekjur Strætós námu 11,1 milljarði og jukust um 16% frá fyrra ári. Þar af voru tekjur af fargjöldum um 2.047 milljónir sem er 18% aukning milli ára, auk þess að vera yfir áætlun.

„Nokkur viðsnúningur var í rekstri Strætó milli ára en kostnaðarverðshækkanir, olíuverðs- og launahækkanir hafa haft gríðarleg fjárhagsleg áhrif á starfsemi samlagsins síðustu ár og hefur fjárhagsstaða Strætó rýrnað verulega,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningnum.

Fargjaldatekjur langt undir viðmiði í eigendastefnu

Rekstrarframlög eignaraðila, þ.e. sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins 6,1 milljarði sem er tæplega eins milljarðs aukning frá fyrra ári. Auk þess var framlag ríkissjóðs 906 milljónir á árinu 2023, líkt og árið áður.

Þrátt fyrir aukin fjárframlög segir Magnús Örn Guðmundsson, stjórnarformaður Strætós, í sjálfbærniskýrslu félagsins að „mun meira fjármagn þarf að leggja til, enda er vagnakostur kominn verulega til ára sinna og krafan um hröð orkuskipti er hávær“.

„Sveitarfélögin sýndu vilja í verki og bættu við framlögin en allir sjá að enn hærri framlög þarf til að reka fyrirtækið svo sómi sé að.“

Magnús Örn bendir í ávarpi sínu á að fargjaldatekjur hafi numið liðlega 21% af heildartekjum Strætó en eigendastefna félagsins gerir ráð fyrir að fargjaldatekjur nemi 40%.

„Öðru hvoru þarf að breyta, fargjöldunum eða stefnunni. Ljóst er að hækka þarf fargjöld, minnka þjónustu eða sækja verulegt fjármagn frá sveitarfélögum og ríki.“

Hann fagnar því þó að fyrstu tveir mánuðir ársins voru metmánuðir en aldrei hafa fleiri innstig mælst í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu. „Þannig að Strætó er að sækja í sig veðrið þó á brattann sé að sækja. Það er sannarlega eitthvað til að byggja á.“

Frekari útvistun þokast hægt þrátt fyrir mikinn vilja

Stjórnarformaðurinn segir að endurnýjun vagnaflota Strætós sé risastórt átaksverkefni. Ef Strætó ætti að endurnýja allan vagnaflotann, þ.m.t. þann hluta (55%) sem rekinn er af verktökum, næmi fjárfestingin vel á annan tug milljarða króna.

„Af þessari ástæðu, og reyndar mörgum öðrum, er mikill vilji innan stjórnar Strætó að fara í enn frekari útvistun á akstrinum en því miður þokast hlutirnir afar hægt áfram.“

Magnús Örn segir að rekstrarkostnaður verktaka sé lægri en Strætó, núverandi fjárbinding í flotanum sé alltof há og fari hækkandi, aldur vagna verktaka sé mun lægri og kolefnisfótspor minna. Jafnframt reki Strætó verkstæði fyrir fjölda tegunda bíla með tilheyrandi flækjustigi og enn fremur þvottastöð. „Margt af þessu stenst illa skoðun á samkeppnismarkaði.“

Niðurstöður fjármálagreiningar KPMG á rekstri Strætó, sem Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um, gáfu til kynna að aukin útvistun gæti leitt til ávinnings fyrir félagið, m.a. þar sem komist yrði hjá verulegri fjárbindingu í nýjum vögnum.

Verð einnig hækkað hjá verktökum

Magnús Örn áréttar þó að verð hafi einnig hækkað hjá verktökum. Samningar við núverandi verktaka séu að renna út og núna standi yfir samningskaupaútboð um þann hluta rekstursins sem þegar er útvistað. Miklar verðhækkanir hafi komið í ljós í nýafstöðnu útboði og var öllum tilboðum hafnað.

„Margar ástæður eru fyrir hærri verðum, m.a. er verð á rafmagnsvögnum 60% hærra en á díselbílum, laun hafa hækkað verulega frá síðasta útboði og vaxtastig er hátt.“

Gamlir jálkar spúa óhreinindum út

Hann kallar eftir skýrum svörum frá ríkinu hvernig niðurfellingu virðisaukaskatts á rafmagnsvagna verði háttað. Nýr rafmagnsvagn kost yfir 80 milljónir króna með vsk. og því sé um verulegar fjárhæðir að ræða.

„Skýr svör þurfa að fara að koma frá ríkinu um hvernig á að styðja við Strætó í þeim orkuskiptum sem óumflýjanlega þurfa að fara fram. Það er afleitt að Strætó sé ekki kominn lengra í orkuskiptum því fyrirtækið á að vera fyrirmynd sem umhverfisvænn ferðamáti. Í staðinn spúa gamlir jálkar óhreinindum út í umferðina og andrúmsloftið.“

Strætó tilkynnti í mars að félagið hefði móttekið níu nýja rafvagna af tegundinni Yes-EU (CRRC 8m) en félagið átti fyrir fimmtán rafmagnsvagna.

Erfiður rekstur Strætó kallar á samtal um Borgarlínuna

Í lok ávarpsins fjallar Magnús Örn um Borgarlínuna. Nýverið hafi verið kynnt fyrir sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins nýtt leiðakerfi Strætó, þar sem Borgarlínunni er ætlað stórt hlutverk.

„Ekki er vitað hver muni annast reksturinn og hver áætlaður kostnaður af rekstri Borgarlínunnar verður. Ljóst er að nýtt leiðakerfi er mjög metnaðarfullt og ekki er útilokað að það geti kostað 15-20 milljarða á ári miðað við forsendur um tíðni og gæði,“ segir Magnús Örn.

„Til samanburðar kostar rekstur Strætó um 9,5 milljarða, þar sem ekkert má út af bregða í rekstrinum eins og fjárhagskafli þessarar skýrslu sýnir svo glögglega og áritun endurskoðanda staðfestir. Þetta gengur auðvitað ekki upp nema með því að byrja að tala um þetta gríðarlega stóra óleysta verkefni, Borgarlínuna, og komast að því hvernig og hver á að leysa það.“

Magnús Örn furðar sig hvað endurskoðun á Samgöngusáttmálanum, sem stendur nú yfir, hafi tekið langan tíma.

„Endurskoðuninni átti að ljúka síðasta sumar og svo í desember. Og svo á næstu mánuðum á eftir. Ekkert heyrist. Vitað er að fjárhæðir í sáttmálanum hafa hækkað í 300-400 milljarða úr 120 milljörðum upphaflega, og samt er verkefnið að mestu í fjárhagsáætlunum enn þá. Allt er þetta með miklum ólíkindum.“

Hann segir miklu máli skipta að þjónusta Strætó haldi áfram að eflast sama hvað komi út úr endurskoðuðum Samgöngusáttmála og Borgarlínuhugmyndum.

„Það eru allt saman framtíðarhugmyndir á teikniborði og í Excel sem vissulega þarf að huga að, en rekstur Strætó er í járnum nákvæmlega núna og eigendur og notendur gera kröfu um góðan rekstur, þjónustu og vagna – í dag!“

Ábending frá blaðamanni: Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um drög að óendurskoðuðu ársuppgjöri Strætós. Samkvæmt drögunum var tap Strætós 186 milljónir í fyrra og eigið fé neikvætt um 176 milljónir í árslok 2023. Taprekstur Strætó var þó meiri og eiginfjárstaða félagsins verri í endanlegu ársuppgjöri sem má rekja til þess að gjaldfærð var 258 milljóna króna lífeyrisskuldbinding.