Ríkisstjórnin hefur tilkynnt um að hún hafi ákveðið í gær að gera breytingar á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Með breytingunni verður byggðakerfið, sem felur í sér strandveiðar, byggðakvóta og fleira, flutt frá atvinnuvegaráðuneytinu, sem er með málefni sjávarútvegsins á sinni könnu, yfir á málefnasvið innviðaráðuneytisins. Tekið er fram að innviðaráðuneytið sé jafnframt ráðuneyti byggðamála.

„Með breytingunni flyst ábyrgð á stjórnarmálefninu byggðakerfi, eða svokölluðu 5,3% kerfi, úr atvinnuvegaráðuneyti og yfir í innviðaráðuneyti. Undir byggðakerfið fellur almennur byggðakvóti, sértækur byggðakvóti, strandveiðar, línuívilnun, skel- og rækjubætur og frístundaveiðar,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að breytingin hafi verið rædd og samþykkt á fundi ríkisstjórnar í gær, 16. júlí. Forseti Íslands hefur undirritað úrskurðinn sem hefur þegar tekið gildi.

Breytingin var ákveðin sama dag og Fiskistofa tilkynnti um að strandveiðum væri lokið í ár og tók bann þess efnis gildi í dag. Strandveiðimenn hafa lýst yfir mikilli óánægju og vísað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið var á um að ríkisstjórnin ætli að tryggja 48 daga til strandveiða. Frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða dagaði uppi í þinginu.