Í pistli Gunnars Þórðar­sonar við­skipta­fræðings sem birtistí Morgun­blaðinu í dag er fjallað um nýja stefnu ríkis­stjórnarinnar sem miðar að því að auka strand­veiðar.

Sam­kvæmt stjórnarsátt­málanum verður lögð sér­stök áhersla á að fjölga veiðidögum og efla hlut smærri báta í sjávarút­vegi.

Gunnar tekur þessa stefnu fyrir og spyr hvort hún byggi á raun­veru­legum hags­munum fyrir þjóðar­búið. Niður­staða hans er skýr: Strand­veiðar eru ekki arðbærar og skapa ekki þau verðmæti sem rétt­læta auknar fjár­festingar í þeim.

„Strand­veiðar eru í raun dýr leið til að veiða fisk,“ skrifar Gunnar.

„Þetta er kerfi sem hefur sína kosti fyrir smábáta­eig­endur á staðnum, en það skilar litlum þjóðhags­legum ávinningi og hefur mjög tak­markaða mögu­leika á að skapa aukin verðmæti fyrir sam­félagið í heild.“

Ný­lega var greint frá því að meðal þeirra smábáta­eig­enda sem munu hagnast á auknum strand­veiðum er Sigur­jón Þórðar­son, alþingis­maður og odd­viti Flokks fólksins í Norðaustur­kjör­dæmi, en hann sinnti ekki upp­lýsinga­skyldu sem á honum hvílir þegar kemur að svo­kallaðri hags­muna­skráningu Alþingis.

Hann hefur í kjölfarið hótað að draga úr ríkis­styrkjum til Morgun­blaðsins vegna um­fjöllunar fjölmiðilsins um þá hags­muni sem hann reyndi að fela en Sigur­jón á, ásamt eigin­konu sinni, fyrir­tækið Sleppa ehf. sem gert hefur út bátinn Sigur­laugu SK 138 til strand­veiða hin síðustu ár og hafa tekjur af út­gerðinni numið tugum milljóna króna.

Áhyggjur af fjár­festingum í óarðbærum rekstri

Í pistli Gunnars varar hann við því að auka strand­veiðar án þess að tryggja hag­kvæmni og langtíma­hugsun í stefnumótuninni.

„Ef stjórn­völd ætla sér að auka hlut strand­veiða, þá verður að skoða hvernig þær geta orðið sjálf­bærar og raun­veru­lega arðbærar,“ segir hann. Að öðrum kosti telur hann hætt við að auknar fjár­festingar í smábátaút­vegi leiði til meiri kostnaðar en ávinnings fyrir ríkis­sjóð og sam­félagið.

Hann bendir á að strand­veiðar, eins og þær eru nú, séu að miklu leyti byggðar á hug­mynda­fræði frekar en rekstrar­legri skyn­semi. „Það er eins og mark­mið þessarar stefnu sé að leggja meiri áherslu á dreifingu afla á mörg byggðar­lög, en ekki að há­marka verðmæta­sköpunina,“ skrifar Gunnar og bætir við að slík nálgun sé vissu­lega vel meint, en gæti leitt til minnkandi sam­keppnis­hæfni ís­lensks sjávarút­vegs.

Eru strand­veiðar svar við byggða­vanda?

Í pistlinum varpar Gunnar einnig fram þeirri spurningu hvort auknar strand­veiðar séu raun­hæf lausn á byggða­vanda. „Það hefur lengi verið talað um strand­veiðar sem leið til að skapa líf í sjávar­byggðum, en er það raun­veru­lega rétt­mæt nálgun?“ spyr hann. „Ef ætlunin er að efla byggðir með veiðum, þarf þá ekki að búa til um­gjörð sem gerir strand­veiðar arðbærar í stað þess að lengja ein­fald­lega veiðitímann?“

Gunnar telur að ef stjórn­völd ætli sér að stórauka hlut strand­veiða þurfi þau að svara mikilvægum spurningum um hag­kvæmni og framtíðarsýn

„Við þurfum að spyrja okkur: Hver er raun­veru­legur ávinningur sam­félagsins af þessum breytingum?“ skrifar Gunnar og leggur áherslu á að allar breytingar á fisk­veiði­stjórnunar­kerfinu þurfi að byggja á traustum gögnum og nákvæmri kostnaðar­greiningu.

Hætta á brott­hvarfi frá stærri út­gerðum

Gunnar bendir á að strand­veiðar standi í raun í mikilli and­stöðu við það kerfi sem hefur skilað ís­lenskum sjávarút­vegi þeim árangri sem hann hefur náð á undan­förnum árum. „Við erum með kvóta­kerfi sem hefur tryggt arð­semi og stöðug­leika í sjávarút­vegi, en nú er verið að reyna að fara aðra leið sem virðist minna á til­rauna­starf­semi,“ segir hann.

Að mati Gunnars er stór hætta á að breytingar á kerfinu grafi undan þeim hagnaði sem stærri út­gerðir hafa skilað og geti leitt til ófyrir­séðra af­leiðinga. „Ef stærri út­gerðir finna sig knúnar til að draga saman seglin vegna skerðinga á kvóta eða aukinna hindrana, þá mun það bitna á tekjum ríkis­sjóðs og at­vinnu­stigi í sjávar­byggðum.“

Varkárni nauð­syn­leg

Í lok pistilsins ítrekar Gunnar að mikilvægt sé að fara var­lega þegar kemur að breytingum á fisk­veiði­stjórnunar­kerfinu. „Ef breytingarnar eru ekki byggðar á skyn­semi og hag­kvæmni, þá getum við staðið frammi fyrir miklum kostnaði og litlum ávinningi,“ segir hann og leggur áherslu á að stefnumótun í sjávarút­vegi verði ávallt að hafa langtíma­hags­muni að leiðar­ljósi.