Í pistli Gunnars Þórðarsonar viðskiptafræðings sem birtistí Morgunblaðinu í dag er fjallað um nýja stefnu ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að auka strandveiðar.
Samkvæmt stjórnarsáttmálanum verður lögð sérstök áhersla á að fjölga veiðidögum og efla hlut smærri báta í sjávarútvegi.
Gunnar tekur þessa stefnu fyrir og spyr hvort hún byggi á raunverulegum hagsmunum fyrir þjóðarbúið. Niðurstaða hans er skýr: Strandveiðar eru ekki arðbærar og skapa ekki þau verðmæti sem réttlæta auknar fjárfestingar í þeim.
„Strandveiðar eru í raun dýr leið til að veiða fisk,“ skrifar Gunnar.
„Þetta er kerfi sem hefur sína kosti fyrir smábátaeigendur á staðnum, en það skilar litlum þjóðhagslegum ávinningi og hefur mjög takmarkaða möguleika á að skapa aukin verðmæti fyrir samfélagið í heild.“
Nýlega var greint frá því að meðal þeirra smábátaeigenda sem munu hagnast á auknum strandveiðum er Sigurjón Þórðarson, alþingismaður og oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, en hann sinnti ekki upplýsingaskyldu sem á honum hvílir þegar kemur að svokallaðri hagsmunaskráningu Alþingis.
Hann hefur í kjölfarið hótað að draga úr ríkisstyrkjum til Morgunblaðsins vegna umfjöllunar fjölmiðilsins um þá hagsmuni sem hann reyndi að fela en Sigurjón á, ásamt eiginkonu sinni, fyrirtækið Sleppa ehf. sem gert hefur út bátinn Sigurlaugu SK 138 til strandveiða hin síðustu ár og hafa tekjur af útgerðinni numið tugum milljóna króna.
Áhyggjur af fjárfestingum í óarðbærum rekstri
Í pistli Gunnars varar hann við því að auka strandveiðar án þess að tryggja hagkvæmni og langtímahugsun í stefnumótuninni.
„Ef stjórnvöld ætla sér að auka hlut strandveiða, þá verður að skoða hvernig þær geta orðið sjálfbærar og raunverulega arðbærar,“ segir hann. Að öðrum kosti telur hann hætt við að auknar fjárfestingar í smábátaútvegi leiði til meiri kostnaðar en ávinnings fyrir ríkissjóð og samfélagið.
Hann bendir á að strandveiðar, eins og þær eru nú, séu að miklu leyti byggðar á hugmyndafræði frekar en rekstrarlegri skynsemi. „Það er eins og markmið þessarar stefnu sé að leggja meiri áherslu á dreifingu afla á mörg byggðarlög, en ekki að hámarka verðmætasköpunina,“ skrifar Gunnar og bætir við að slík nálgun sé vissulega vel meint, en gæti leitt til minnkandi samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs.
Eru strandveiðar svar við byggðavanda?
Í pistlinum varpar Gunnar einnig fram þeirri spurningu hvort auknar strandveiðar séu raunhæf lausn á byggðavanda. „Það hefur lengi verið talað um strandveiðar sem leið til að skapa líf í sjávarbyggðum, en er það raunverulega réttmæt nálgun?“ spyr hann. „Ef ætlunin er að efla byggðir með veiðum, þarf þá ekki að búa til umgjörð sem gerir strandveiðar arðbærar í stað þess að lengja einfaldlega veiðitímann?“
Gunnar telur að ef stjórnvöld ætli sér að stórauka hlut strandveiða þurfi þau að svara mikilvægum spurningum um hagkvæmni og framtíðarsýn
„Við þurfum að spyrja okkur: Hver er raunverulegur ávinningur samfélagsins af þessum breytingum?“ skrifar Gunnar og leggur áherslu á að allar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu þurfi að byggja á traustum gögnum og nákvæmri kostnaðargreiningu.
Hætta á brotthvarfi frá stærri útgerðum
Gunnar bendir á að strandveiðar standi í raun í mikilli andstöðu við það kerfi sem hefur skilað íslenskum sjávarútvegi þeim árangri sem hann hefur náð á undanförnum árum. „Við erum með kvótakerfi sem hefur tryggt arðsemi og stöðugleika í sjávarútvegi, en nú er verið að reyna að fara aðra leið sem virðist minna á tilraunastarfsemi,“ segir hann.
Að mati Gunnars er stór hætta á að breytingar á kerfinu grafi undan þeim hagnaði sem stærri útgerðir hafa skilað og geti leitt til ófyrirséðra afleiðinga. „Ef stærri útgerðir finna sig knúnar til að draga saman seglin vegna skerðinga á kvóta eða aukinna hindrana, þá mun það bitna á tekjum ríkissjóðs og atvinnustigi í sjávarbyggðum.“
Varkárni nauðsynleg
Í lok pistilsins ítrekar Gunnar að mikilvægt sé að fara varlega þegar kemur að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Ef breytingarnar eru ekki byggðar á skynsemi og hagkvæmni, þá getum við staðið frammi fyrir miklum kostnaði og litlum ávinningi,“ segir hann og leggur áherslu á að stefnumótun í sjávarútvegi verði ávallt að hafa langtímahagsmuni að leiðarljósi.