Fjárfestingafélagið Strengur, sem á rúmlega helmingshlut í Skel fjárfestingafélagi, hagnaðist um 2,6 milljarða króna í fyrra en árið 2023 nam hagnaðurinn 2,1 milljarði króna.

Virði eignarhlutar Strengs í Skel jókst um 3,5 milljarða króna á milli ára og nam 21 milljarði króna í lok árs samanborið við 18 milljarða árið áður. Markaðsvirði eignarhlutar félagsins í Skel nam um 17,2 milljörðum króna í árslok samkvæmt yfirliti vörsluaðila. Skuldir Strengs námu 6,2 milljörðum króna í árslok. Þar af er 5,5 milljarða króna óverðtryggt langtímalán með gjalddaga í desember 2026.

Skel fjárfestingarfélag hagnaðist um 6.754 milljónir króna árið 2024. Stjórn Skel lagði til á aðalfundi í mars sl. að greiddur yrði út 6 milljarða króna arður til hluthafa í tvennu lagi á árinu 2025. Þar af mun Strengur fá greidda um þrjá milljarða króna í arð miðað við rúmlega helmings eignarhlut félagsins í Skel. Tillagan var samþykkt samhljóða á aðalfundi Skeljar.

Fyrri arðgreiðslan kom til greiðslu 20. mars sl. Seinni arðgreiðslan verður greidd út til hluthafa 20. október nk.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.