Strengur Holding ehf. hagnaðist um 5,6 milljarða króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins IREF ehf., sem er í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar og Þórarins Arnars Ævarssonar, og á 20% hlut í Streng. Jafnframt kemur fram að eigið fé Strengs Holding hafi verið ríflega 11,5 milljarðar króna í lok síðasta árs.
Strengur var stofnað haustið 2020 af hópi fjárfesta um yfirtökutilboð í Skeljungi sem til stóð að skrá af markaði og gera verulegar breytingar á rekstrinum. Strengur fór þá með ríflega 36% hlut í Skeljungi. Hljóðaði tilboðið upp á 8,315 krónur á hlut og samtals upp á ríflega 10 milljarða króna. 2,6% hluthafa tóku yfirtökutilboðinu og átti Strengur um 42% hlut í Skeljungi eftir það. Í kjölfarið hélt Strengur áfram að kaupa meira hlutafé í Skeljungi á hærra verði en miðað var við í yfirtökutilboðinu.
Ekki hefur orðið af afskráningu félagsins, aðallega vegna andstöðu lífeyrissjóða í eigendahópnum, en Strengur hefur frá því í byrjun árs 2021 ráðið ferðinni hjá Skeljungi sem meirihlutaeigandi. Strengur er einnig stærsti eigandi fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns, sem skráð er á First North markaðnum, með 19,2% hlut.
Boðaði Strengur talsverðar breytingar á Skeljungi við yfirtökuna. Stefnt væri að sölu eigna og greiðslu til hluthafa í formi arðs eða kaupa á eigin bréfum. Efnahagsreikningur Skeljungs myndi minnka töluvert á næstu þremur árum. Benti Strengshópurinn á að hlutverk Skeljungs myndi breytast á næstu árum vegna orkuskipta í samgöngum þar sem bensínbílar væru á útleið. Breytingarnar fælu í sér að færa hefðbundinn rekstur félagsins úr olíusölu yfir í að vera fjárfestingafélag.