Hagnaður Walt Disney Co. var umfram væntingar á síðasta ársfjórðungi og nam hagnaður á hlut 1,39 dölum, samanborið við spá greinanda Bloomberg um 1,19 dala hagnað á hlut. Tekjur jukust um 3,7% og námu 23,2 milljörðum dala, sem er örlítið meira en spár gerðu ráð fyrir.

Disney hefur nú hækkað afkomuspá sína fyrir rekstrarárið, sem lýkur í lok september, og er gert ráð fyrir að hagnaður muni aukast um 30%, samanborið við 25% í fyrri spám.

Streymisveitur Disney, sem telja Disney+, Hulu og ESPN+, skiluðu 47 milljóna dala hagnaði og er það í fyrsta sinn sem hagnaður er af rekstri streymisveitnanna frá því að Disney+ hóf göngu sína árið 2019. Síðustu ár hafa streymisveiturnar skilað milljarða tapi. Disney tilkynnti í gær að áskrift að Disney+ muni hækka um allt að 25%.

Hagnaður var sömuleiðis af rekstri kvikmyndavers Disney um 254 milljónir dala en útgáfa teiknimyndarinnar Inside Out 2 í júní spilaði þar stórt hlutverk.

Rekstur skemmtigarða Disney var þó lakari en spár gerðu ráð fyrir, sem má rekja til hækkandi kostnaðar og minni eftirspurnar.