Íslenski ferðamiðillinn og markaðstorgið Stuck in Iceland er til sölu. Umferð um vefinn hefur aukist umtalsvert á síðustu misserum.
Jón Heiðar Ragnheiðarson, sem stofnaði Stuck in Iceland árið 2012 og hefur haldið vefsíðunni uppi í frítíma sínum, telur mikil tækifæri fyrir aðila sem getur sinnt miðlinum af fullum krafti að taka við keflinu.
„Þetta hefur verið frístundarverkefni og áhugamál sem ég hef sinnt á kvöldin og um helgar,“ segir Jón Heiðar sem birtar að jafnaði um eina grein á viku. „Það er mjög skemmtilegt að brasa í þessu, ég er að taka viðtöl við alls konar fólk um Ísland, bæði fólk ferðabransanum en líka listafólki, rithöfundum og vísindafólki.“
Á fyrri helmingi ársins jókst umferðin á vefinn um 286% miðað við sama tímabil í fyrra, að því er kemur fram í auglýsingu um Stuck in Iceland á Kennitalan.is, nýjum vettvangi fyrir kaup og sölu fyrirtækja á Íslandi.
Aukinn aðsókn skýrist m.a. af því að umferð frá leitarvélum (e. organic search traffic) og í gegnum póstlistann ríflega þrefaldaðist milli ára.
Notendur vefsins eru um 80 þúsund í dag samanborið við um 28 þúsund á sama tíma í fyrra að sögn Jóns Heiðars. „Þetta hefur bara sprungið út.“
Tækifæri til að efla markaðstorgið
Árið 2019 ákvað Jón Heiðar að bjóða nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum í samstarf sem gengur út á að lesendur fá afsláttarkóða sem þeir geta nýtt í bókunarvélum umræddra fyrirtækja. Fyrir vikið kaupa þeir ferðir beint en ekki í gegnum stórar erlendar bókunarsíður. Stuck in Iceland fær á móti um 5% þóknun.
Það er alveg ótrúlegt hvað maður getur gert á eigin spýtur,“ segir Jón Heiðar.
Jón Heiðar á í dag í samstarfi við um 40 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki. Velta þessara samstarfsaðila í gegnum vefinn var 105 milljónir króna í fyrra og námu tekjur Stuck in Iceland því um 5 milljónum króna í fyrra. Veltan á fyrri helmingi þessa árs jókst um a.m.k. 20% frá sama tímabili í fyrra.
Jón Heiðar hefur starfað undanfarin tvö ár sem sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu hjá íslenska hátæknifyrirtækinu Controlant. Hann segist enn njóta þess að sinna ferðamiðlinum í frítíma sínum og myndi glaður halda því áfram.
„Ég tel þetta hins vegar ágætan tímapunkt til að kanna hvort einhver hafi áhuga á að fara lengra með þetta. Ég held það séu rosaleg tækifæri í þessu fyrir aðila sem getur sinnt Stuck in Iceland af fullum krafti, t.d. einhverja unga ofurhuga.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.