Vörðugil er nýlega stofnað endurmenntunarnámskeið vegna prófs í verðbréfaviðskiptum en námskeiðið er samansett af fjórum fyrirlestrum sem nemendur fá aðgang að eftir skráningu. Marinó Örn Tryggvason er stofnandi Vörðugils en námskeiðið er verðlagt á tæpar 20 þúsund krónur.
Í lok síðasta árs fengu allir þeir sem höfðu verðbréfaréttindi tilkynningu frá sýslumanni um að ljúka þyrfti endurmenntun vegna verðbréfaréttinda. Rúmlega þrjátíu þúsund manns hafa þessi réttindi og þurfa að ljúka að lágmarki sex klukkustunda endurmenntun á þriggja ára tímabili.
„Ég kynnti mér hvaða námskeið, sem prófnefnd verðbréfaréttinda hafði samþykkt, stæðust kröfur til endurmenntunar. Í boði voru fá námskeið og voru sum hver mjög áhugaverð en almennt þó nokkuð dýr. Mér datt því í hug að búa til eigið námskeið og fékk staðfestingu á að það myndi telja fjórar klukkustundir í endurmenntun.“
Marinó, sem hefur starfað á fjármálamarkaði síðan 2002, vonast til að reynsla hans af fjárfestingum og eignastýringu gagnist þátttakendum námskeiðsins. Hann segir að fyrirlestrarnir fjórir taki ekki nema fjórar til fimm klukkustundir en þar fjallar Marinó meðal annars um eignastýringarákvarðanir og kynnir helstu eignastýringarkenningar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.