Meirihluti landsmanna virðist hlynntur því að fleiri atvinnugreinar en sjávarútvegur greiði auðlindagjöld samkvæmt könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið. Tæplega 75% þátttakenda sögðust hlynnt því að aðrar atvinnugreinar en sjávarútvegur sem nýta náttúruauðlindir landsins greiði auðlindagjald, þar af voru 36,7% frekar hlynnt og 37,8% mjög hlynnt. Aðeins 8,5% þátttakenda voru andvíg slíkri gjaldtöku, þar af 3,5% frekar andvíg og 5% mjög andvíg. Þá voru 17% hvorki hlynnt né andvíg.
Athygli vekur að talsverður munur er á afstöðu eftir aldurshópum. Aðeins rúmlega helmingur þátttakenda á aldursbilinu 18-29 ára sagðist hlynntur því að fleiri atvinnugreinar greiði auðlindagjöld, þar af 22% mjög hlynnt, og 14% andvíg, þar af 5% mjög andvíg, en 31% sögðust hvorki hlynnt né andvíg.
Á sama tíma voru 84% þátttakenda á aldursbilinu 60-69 ára hlynnt því, þar af 50% mjög hlynnt, en aðeins 6% andvíg og 10% hvorki hlynnt né andvíg. Eftir því sem þátttakendur voru eldri jókst stuðningur við frekari auðlindagjöld jafnt og þétt.
Þá var nokkur munur ef horft er til búsetu. Þátttakendur á Suðurlandi voru minnst hlynntir því að fleiri atvinnugreinar greiði auðlindagjald, eða 37% og þar af voru 32% mjög hlynnt. 18% voru andvíg og 25% hvorki né.
Þátttakendur á Austurlandi voru aftur á móti hlynntari frekari gjaldtöku eða 84%, þar af 52% mjög hlynnt. Enginn var andvígur en 19% svöruðu hvorki né.
Stjórnarandstaðan andvíg
Loks var spurt hvaða flokk eða lista þátttakendur myndu kjósa eða líklegast kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.
Kjósendur Samfylkingarinnar og Viðreisnar voru helst hlynntir því að fleiri atvinnugreinar myndu greiða auðlindagjald, eða 86% Þar af voru 48% af kjósendum Samfylkingarinnar mjög hlynnt og 42% af kjósendum Viðreisnar. Aðeins 2-3% kjósenda flokkanna voru andvíg en 11-12% svöruðu hvorki né. Þeir sem sögðust myndu kjósa annan flokk eða lista voru á svipuðum slóðum.
Kjósendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins voru á móti minnst hlynntir aukinni gjaldtöku. Meðal kjósenda Framsóknarflokksins sögðust 66% þátttakenda hlynnt, þar af 17% mjög hlynnt, en 14% sögðust andvíg, þar af 9% mjög andvíg. Í tilviki kjósenda Sjálfstæðisflokksins voru um 56% hlynnt, þar af 22% mjög hlynnt, en 23% andvíg, þar af 14% mjög andvíg.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.