Nýlega birtust niðurstöður stærstu rannsóknar af sinni gerð sem hefur verið framkvæmd á sárum. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að fótasár af völdum sykursýkis, á stigi 2 og 3, eru fljótari að lokast og mun líklegri til að gróa með fiskiroði samanborið við hefðbundna meðferð.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, segir að Kerecis muni nú nota þessar niðurstöður til að ná enn sterkari fótfestu á Bandaríkjamarkaði þar sem félagið er nú þegar á mikilli siglingu.
„Í fyrsta lagi munum við nota gögnin í markaðstilgangi, til að sannfæra þá lækna sem ekki nota sáraroðið til að nota það. Í öðru lagi munum við nota gögnin í viðræðum við tryggingarfélög, sem hafa hingað til ekki greitt fyrir sáraroðið, til að fá þau til að bæta roðinu á lista sína yfir samþykktar vörur, enda sýnir rannsóknin að sáraroðið veiti betri bata en hefðbundnar meðferðir.“
Rannsóknin var birt í tímaritinu New England Journal of Medicine Evidence. Höfundar greinarinnar eru 19 og eru Baldur Tumi Baldursson húðlæknir og Hilmar Kjartansson bráðalæknir meðhöfundar greinarinnar en þeir voru báðir í meðstofnendahóp Kerecis.
Rannsóknin var framkvæmd á 255 sjúklingum í fimmtán sáradeildum í fjórum löndum, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Svíþjóð.
Um er að ræða stærstu slembivalsrannsókn sem hefur hingað til verið birt um virkni líffræðilegra meðferða á fótasárum á stigi 2 og 3, en til þessa hafa samanburðarrannsóknir á líffræðilegri sárameðhöndlun og hefðbundinni meðferð einblínt á stig 1.
Þrjú stig sára
Sáraflokkunarkerfi Texas háskólans flokkar sár í þrjú stig. Stig 1 eru sár sem ná inn í húð og hold. Stig 2 eru sár sem ná dýpra, að liðböndum eða liðpokum. Stig 3 eru sár sem ná að beinum eða liðamótum. Þegar sár ná stigi 3 er hætta á sýkingu í beinum, sem er lífshættulegt.
„Þegar sár eru á stigi 2 eða 3 og eru ekki á bataleið þá er ástandið grafalvarlegt og læknirinn fer að huga að aflimun. Aflimun er gríðarmikið inngrip og hefur mikil áhrif á líf og lífsgæði sjúklinga,“ segir Guðmundur.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar sem kom út í vikunni.