Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir stýrivexti áfram munu gegna lykilhlutverki í baráttu seðlabankans við verðbólguna þrátt fyrir fjölbreyttara vopnabúr nú en áður. Hann telur ekki teljandi togstreitu milli peningastefnu og þjóðhagsvarúðarstefnu enn sem komið er, en að slík staða gæti vel komið upp á næstunni.
Stefnurnar ekki komnar í andstöðu
Í
nýlegri grein eftir Jón Daníelsson
hagfræðing og tvo kollega hans er því haldið fram að þjóðhagsvarúðarstefna sé nú farin að togast á við peningastefnu í fyrsta sinn síðan fyrir hrun. Ásgeir segist ekki vilja ganga svo langt að segja að stefnurnar séu komnar í andstöðu hvor við aðra enn sem komið er, en slík staða geti vissulega komið upp ef seðlabankar neyðist til að hækka vexti mjög mikið til að ná tökum á verðbólgunni.
Fyrirtækjalán aukist á næstunni
Mikið hefur verið rætt um að það svigrúm og sú hvatning sem bankakerfinu hér á landi var veitt til að lána út peninga í faraldrinum með lækkun stýrivaxta og lausa- og eiginfjárkrafna hafi að mestu leyti runnið til fasteignalána til heimilanna fremur en að hjálpa fyrirtækjum að halda sér á floti.
Ásgeir segir að útlán bankanna hafi að miklu leyti ráðist af eftirspurn. „Ég held að ástæðan fyrir því að bankarnir lánuðu ekki meira til fyrirtækja hafi fyrst og fremst verið skortur á eftirspurn þeirra eftir lánsfé. Að þessu sögðu sé ég alveg fyrir mér að bankarnir verði virkari á þessum markaði á næstunni og útlán til fyrirtækja muni aukast,“ enda sé til staðar töluverð uppsöfnuð fjárfestingaþörf í mörgum greinum.
Stýrivextir áfram aðaltækið
Þurfi að grípa til mikilla vaxtahækkana til að bregðast við vaxandi verðbólgu muni það þó óumflýjanlega setja strik í þann reikning. „Það er alveg rétt, en það er ekki hægt að gera allt í einu. Hækkun vaxta á að leiða af sér forgangsröðun fjárfestingaverkefna og þau arðsömustu fá svigrúm til þess að rætast.“
Ásgeir vill lítið segja um hvort horft verði til annarra og hnitmiðaðri stjórntækja en stýrivaxta til að styðja við atvinnuvegafjárfestingu á sama tíma og reynt verður að hemja verðbólguna ef svo fer.
„Við yrðum bara að skoða það. Við höfum náttúrulega töluverða stjórn á vissum áhrifaþáttum útlána þó að bankarnir ráði sínum útlánum sjálfir þegar upp er staðið,“ segir hann og nefnir lausa- og eiginfjárkröfur. „En þegar kemur að verðbólgu þá eru stýrivextir og verða einfaldlega aðaltækið.“
Nánar er rætt við Ásgeir í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .