Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 9,25%.
„Verðbólga hefur hjaðnað undanfarið og mældist 7,6% í júlí. Framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu hefur minnkað, dregið hefur úr alþjóðlegum verðhækkunum og gengi krónunnar hækkað. Innlendar verðhækkanir hafa hins vegar reynst þrálátar og eru enn á breiðum grunni. Undirliggjandi verðbólga hefur því minnkað hægar en mæld verðbólga og var 6,7% í júlí,” segir í ákvörðun nefndarinnar.
Mun þetta vera fjórtánda stýrivaxtahækkun nefndarinnar í röð. Nefndin kom síðast saman í maí og hækkaði þá stýrivexti bankans um 1,25 prósentustig, úr 7,5% í 8,75%. Jafnframt ákvað nefndin að hækka fasta bindiskyldu innlánsstofnana úr 1% í 2% í maí.
Í yfirlýsingu nefndarinnar í maí kom fram að búast mætti við frekari hækkunum eftir sumarið. Næsti fundur nefndarinnar er í október.
„Hagvöxtur mældist 7% á fyrsta fjórðungi þessa árs og atvinnuleysi hefur haldið áfram að minnka. Enn er því töluverð spenna á vinnumarkaði og í þjóðarbúinu í heild þótt vísbendingar séu um að tekið sé að hægja á vexti efnahagsumsvifa,“ segir í ákvörðuninni.
Að mati nefndarinnar hafa verðbólguhorfur til lengri tíma lítið breyst þótt horfur til skamms tíma hafi batnað frá því í maí. Þá eru verðbólguvæntingar til lengri tíma vel yfir markmiði. Því er enn hætta á að verðbólga reynist þrálát.
Vextir fjármálafyrirtækja við Seðlabankann verða svona
Vextir á ári |
11% |
10% |
9,25% |
9% |
9% |
0% |
„Í ljósi þess er nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Einkum er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Vísbendingar eru um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram og mun peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“
Kynning á yfirlýsingu peningastefnunefndar
Vefútsending með kynningu á yfirlýsingu nefndarinnar fer fram klukkan 9:30.
Á kynningunni gera Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu og staðgengill formanns og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu, grein fyrir yfirlýsingu peningastefnunefndar og kynna efni Peningamála.
Hægt er að horfa á kynninguna í fréttinni hér að neðan.