Seðlabanki Rússlands tilkynnti í morgun um að hann hefði ákveðið að hækka stýrivexti fimmta sinn í röð. Stýrivextir bankans hækka úr 15% í 16%, í samræmi við væntingar markaðsaðila, að því er segir í frétt Financial Times.

„Verðbólguþrýstingur hefur stigmagnast á síðustu mánuðum,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar rússneska seðlabankans. Nefndin sagði innlenda eftirspurn vera að vaxa umfram framleiðslugetu í rússneska hagkerfinu.

Verðbólga í Rússlandi mælist nú yfir 7% og er ekki fjarri verstu sviðsmynd seðlabankans yfir verðbólguþróun á árinu. Til samanburðar er verðbólgumarkmið bankans 4-4,5%. Bankinn varaði við að Rússland horfi fram á langvarandi tímabil af aðhaldi í peningastefnu og krefjandi lánaumhverfi í hagkerfinu.