Jerome Powell seðlabankastjóri Bandaríkjanna kynnti rétt í þessu 25 punkta lækkun á meginvöxtum bankans.

Seðlabankinn tók stærra skref en aðrir seðlabankar í septembermánuði er bankinn ákvað að hefja vaxtalækkunarferlið á 50 punkta lækkun.

Meginvextir bankans eru nú á bilinu 4,5% til 4,75% en samkvæmt The Wall Street Journalvoru allir tólf meðlimir nefndarinnar sammála vaxtalækkuninni.

Nefndin metur það svo að áhættan í kringum það að ná vinnumarkaðs- og verðbólgumarkmiðum sé í jafnvægi,” segir í tilkynningu nefndarinnar.

Hlutabréfavísitölur hafa verið í hæstu hæðum eftir að Donald Trump, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, var kjörinn forseti aðfaranótt miðvikudags.

Úrvalsvísitalan S&P 500 hækkaði um 2,5% í gær en vísitalan hefur aldrei hækkað jafn mikið á einum degi eftir kjördag.

Samkvæmt WSJ eru meðlimir peningastefnunefndar bandaríska seðlabankans sannfærðir um að verðbólgan sé á niðurleið og hægt sé að ná mjúkri lendingu.