Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, tilkynnti rétt í þessu að hann hefði ákveðið að lækka stýrivexti um 25 punkta, úr 5,25% í 5,0%. Stýrivextir bankans höfðu verið óbreyttir í 5,25% frá því í ágúst 2023 en til samanburðar þá voru þeir síðast hærri fyrir 16 árum.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Englandsbanka kemur fram að fimm af níu meðlimum nefndarinnar greiddu atkvæði með 25 punkta lækkun en hinir fjórir nefndarmennirnir vildu fremur halda vöxtum óbreyttum.
Vaxtalækkunin var í samræmi við væntingar. Verðlagning á verðbréfamörkuðum í aðdraganda vaxtaákvörðunarinnar gaf til kynna að markaðsaðilar töldu um 65% líkur á að Englandsbanki myndi lækka vexti.
Ákvörðun Englandsbanka kemur í kjölfar tveggja verðbólgumælinga í maí og júní þar sem ársverðbólga mældist 2,0% og var því komin í verðbólgumarkmið bankans.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar kemur þó fram að búist sé við því að verðbólgan verði í kringum 2,75% á seinni hluta ársins, ekki síst þar sem einstakar mælingar í fyrra sem innihéldu lækkanir á orkuverði munu falla út úr 12 mánaða útreikningnum á næstunni.
Nefndin segir að taumhald peningastefnunnar þurfi að vera nægjanlega þétt áfram þar til dregið hefur úr ákveðnum áhættuþáttum sem torvelda það að ná verðbólgu í kringum 2% verðbólgumarkmiðið á sjálfbæran hátt til meðallangs tíma.
Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti í gærkvöldi um að hann hefði ákveðið að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum í 5,25-5,5% en þeir hafa ekki verið hærri í 23 ár. Seðlabanki Bandaríkjanna gaf þó til kynna að það gæti farið að styttast í að vaxtalækkunarferli hefjist.