Greining Íslandsbanka spáir því að vaxtahækkunarferli Seðlabankans muni ljúka fyrir lok árs 2023 og að þeir nái hámarki í 9,5%. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýrri þjóðhagsspá bankans fyrir árin 2023-2025.
Þá spáir greiningardeild Íslandsbanka því að vaxtalækkanir Seðlabankans hefjist snemma árs 2024 og að stýrivextir verði orðnir um 5,5% undir lok árs 2025.
Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði vexti úr 7,5% upp í 8,75% á síðasta vaxtaákvörðunarfundi 24. maí sl. Nefndin á þrjá fundi eftir á árinu, en næsti fundur er haldinn 23. ágúst nk.
Hóflegur hagvöxtur og hjöðnun verðbólgunnar
Íslandsbanki spáir talsvert minni hagvexti í ár samanborið við nýjustu spá Seðlabankans í Peningamálum sem komu út 24. maí í tilefni af vaxtaákvörðun bankans.
Íslandsbanki spáir 3,1% hagvexti á árinu 2023. Til samanburðar spáir Seðlabankinn 4,8% hagvexti á þessu ári. Munurinn á hagvaxtarspám skýrist í minni eftirspurnarvexti, en Íslandsbanki spáir hægari vexti í einkaneyslu og fjárfestingu samanborið við Seðlabankann.
Greining Íslandsbanka telur að hjöðnun verðbólgunnar sé í kortunum. Þannig verði verðbólga að meðaltali 8,7% á þessu ári, 5,3% á því næsta og 3,7% árið 2025. Íbúðamarkaður stefni í jafnvægi og að íbúðaverð muni tempra verðbólguna.
Í spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 8% sterkari í lok spátímans en hún var í árslok 2022 sem jafngildir því að evran kosti um það bil 142 kr.
Það sem af er árinu 2023 hefur gengi krónu verið nokkuð stöðugt og hefur evran sveiflast á bilinu 148-157 kr. frá áramótum.
Metár framundan í ferðaþjónustu
Í spánni er gert ráð fyrir ríflega 2,1 milljónum ferðamanna hingað til lands á árinu, sem er meira en árið 2019 fyrir faraldur og álíka margir og sóttu landið heim árið 2017.
Gert er ráð fyrir 2,3 milljónum ferðamanna árið 2024 og tæplega 2,5 milljónum árið 2025. Næstu tvö ár verða því metár í ferðaþjónustu ef spá Íslandsbanka gengur eftir. Hafa verður í huga að í spánni er miðað við brottfarir um Keflavíkurflugvöll og eru farþegar sem ferðast til Íslands með Norrænu eða skemmtiferðaskipum ekki taldir með.
Vegna kröftugrar ferðaþjónustu mun útflutningur aukast um 8,1% í ár og viðskiptahalli á utanríkisviðskiptum nema 0,7% á árinu. Hóflegur afgangur verður á árunum 2024 og 2025, ef marka má spá bankans.