„Við höfum sett stefnuna á að byggja upp leiðandi þjónustufyrirtæki á fyrirtækjamarkaði og teljum nú að við séum með fólkið, fjármagnið og framtíðarsýnina til að gera það,“ segir Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss.

Styrkás er þjónustufyrirtæki, stofnað árið 2022, og samanstendur af Skeljungi, Kletti og nú nýlega Stólpa Gámum. Félagið er í 63,4% eigu Skel fjárfestingafélags og 27% í eigu framtakssjóðsins Horn IV. Það hefur markað sér stefnu um að byggja ofan á sterkar stoðir samstæðunnar með innri og ytri vexti á fimm kjarnasviðum. Ásmundur bætir við að félagið hafi greint innviðafjárfestingarnar framundan og er Styrkási ætlað að þjóna þeim fyrirtækjum sem mörg verði þátttakendur í uppbyggingu innviða.

„Við ætlum að stækka með innri og ytri vexti, víkka vöru- og þjónustuframboðið og nýta stærð okkar til að bjóða upp á hagkvæma þjónustu. Við höfum jafnframt sett okkur skýr markmið í innri vexti og stefnum á að hagnaður fyrir afskriftir verði 4-5 milljarða innan fárra ára, en á þessu ári er áætlaður hagnaður fyrir afskriftir 2,7 milljarðar króna. Það er því verk að vinna. Þegar því markmiði hefur verið náð er skýr stefna að skrá félagið í Kauphöll fyrir árslok 2027,“ segir Ásmundur.

Félagið hyggst ná settum vaxtarmarkmiðum í gegnum fimm kjarnasvið; orka og efnavara, tæki og búnaður, eignaumsýsla og leigukjarni, umhverfisþjónusta og iðnaðarkjarni.

„Þar komum við inn á fimm kjarnasvið sem við höfum skilgreint. Það er orka og efnavara, þar sem Skeljungur, umboðsaðili Shell, myndar kjarnann og við höfum áhuga á að byggja utan um það svið. Tæki og búnaður er annar kjarni, svið sem Klettur sinnir m.a. sem umboðsaðili Caterpillar og Scania. Svo vorum við að bæta við þriðja kjarnanum með kaupum á Stólpa Gámum í apríl síðastliðnum, sem felur í sér eignaumsýslu og leigukjarna.

Til viðbótar við þessa þrjá kjarna stefnum við á að byggja upp tvo nýja kjarna innan samstæðunnar. Annars vegar umhverfisþjónustu og hins vegar iðnaðarkjarna. Stefnan er að byggja upp þessi tvö svið m.a. með ytri vexti með kaupum á félögum og að byggja ofan á það með innri vexti, mögulega samhliða smærri yfirtökum þegar kjarnarnir hafa verið myndaðir.“