Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitti í dag styrki til verkefna á sviði félags- og velferðarmála. Veittur var 41 styrkur og nam heildarfjárhæðin ríflega 200 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins.

Meðal styrkhafa hafa eru Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök leigjenda á Íslandi sem fá 3 milljónir króna í rekstrarstyrk hvor um sig.

Viðskiptablaðið fjallaði nýverið um ríkisstyrki til Hagsmunasamtaka heimilanna sem námu 14,1 milljónum á árunum 2021-2022. Eitt helsta baráttumál samtakanna er afnám verðtryggingar. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður samtakanna og þingmaður Flokks fólksins, sakaði viðskiptabankana um „landráð af verstu sort“ vegna verðtryggðra húsnæðislána í nýrri ársskýrslu samtakanna.

Á heimasíðu Samtaka leigjenda segir að markmið þeirra sé að bæta réttindi og hag leigjenda. Barátta samtakanna hefur að undanförnu einkum snúist um að berjast fyrir innleiðingu leiguþaks.

Samtök leigjenda eru nátengd hreyfingu Sósíalistaflokksins. Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins, situr í stjórn samtakanna. Þá situr Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda, í stjórn fjölmiðilsins Samstöðvarinnar sem Gunnar Smári fer fyrir.

Einnig má benda á að Sósíalistaflokkurinn lagði til fyrir síðustu þingkosningar sett yrðu á lög um húsleigu þar sem kveðið yrði um um að Samtök leigjenda væru samningsaðili um leiguverð.

Styrkúthlutun fór fram á Reykjavík Natura í dag.