Hjá Alvotech starfa yfir þúsund manns frá 63 löndum. Félagið hefur á undanförnum árum unnið náið með Háskóla Íslands og styrkt meistaranám í líftækni til að styðja við útskrift nemenda sem geta nýst starfsemi fyrirtækisins, bæði á Íslandi og erlendis.

„Samstarfið hefur gengið vel, verið formlega í gangi í sex ár og var nýlega framlengt,“ segir Róbert Wessman, forstjóri Alvotech.

Félagið hefur einnig stofnað eigin innahússskóla og býður nú upp á sérstakt þjálfunarprógramm þar sem þátttakendur fá full laun meðan á þjálfun stendur.

„Markmiðið er að ráða sem flesta Íslendinga til starfa og tryggja sjálfbæra starfsemi með Íslendinga í fararbroddi. Útlendingar koma oft tímabundið og skilja eftir dýrmæta þekkingu, en framtíðin byggir á innlendu starfsfólki,“ bætir Róbert við.

Þá er Alvotech í samstarfi við Háskóla Íslands og eignarhaldsfélagið Aztiq að setja á stofn nýtt líftæknisetur í Klettagörðum við Sundahöfn. Þar verður fullkomin rannsóknaraðstaða sem nýtt verður til þjálfunar nýs starfsfólks Alvotech og fyrir kennslu og rannsóknir í iðnaðarlíftækni við HÍ.

Setrið mun hýsa nýsköpunardeild Alvotech og fyrirtækjahraðal fyrir sprota á sviði líftækni. Róbert segir að nánari kynningar á líftæknisetrinu sé að vænta á næstu vikum.

Nánar er rætt við Róbert í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.