Héraðs­dómur Reykja­víkur dæmdi ís­lenska ríkið til að greiða Styrmi Þór Braga­syni, fyrr­verandi for­stjóra MP-banka, tæp­lega 30 milljónir í skaða­bætur og 9,3 milljónir í miska­bætur, sam­kvæmt frétt RÚV.

Styrmir þurfti að af­plána dóm tengdan Exeter-málinu svo­kallaða en sá dómur var síðan felldur úr gildi.

Lög­maður Styrmis fór fram á 225 milljónir króna sem miðaðist við það há­tekju­starf sem Styrmir var í þegar hann var dæmdur til fangelsis­refsingar.

Sam­kvæmt RÚV vildi lög­maður Styrmis ekki tjá sig eftir dóms­upp­kvaðningu um hvort ákvörðun um áfrýjun hafi verið tekin.

Styrmir Þór var dæmdur árið 2013 af Hæstarétti í eins árs fangelsi vegna meintrar hlutdeildar í umboðssvikum stjórnenda Byrs sparisjóðs í svokallaða Exeter-málinu

Eftir úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu tók Hæstiréttur málið aftur fyrir og vísaði því frá fyrir rúmu ári vegna mistaka Endurupptökudóms að senda málið til Hæstaréttar en ekki Landsréttar.

Sýknudómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá árinu 2013 stendur því óhaggaður.

Upplifun mín var sú að það skipti engu máli hvað hafði gerst og hver rökin höfðu verið. Það var eins og það hefði verið ákveðið að það átti bara að dæma bankastjórana, punktur,“ segir Styrmir Þór Bragason, sem starfaði sem forstjóri MP banka á árunum 2006-2009, í nýlegum hlaðvarpsþætti Athafnafólks.

Styrmir var ákærður og handtekinn vegna málsins árið 2010, rúmu ári eftir að hann lét af störfum hjá MP banka, forvera Kviku banka. Styrmir Þór lýsir því að hafa verið að yfirgefa heimili sitt að morgni til einn daginn.

„Ég er bara að labba út heima hjá mér með íþróttatöskuna og dagblað undir hendinni þegar tveir menn í jeppa sitja fyrir mér, pikka mig upp í bílinn og segja að ég sé handtekinn. Ég spyr fyrir hvað? Þá vita þeir það ekki og geta ekki svarað því. Þeir verða að hringja í yfirmann sinn og finna út úr því af hverju er verið að handtaka mig,“ segir Styrmir Þór og bætir við að hann hafi síðan verið upplýstur um að hann væri með réttarstöðu sakbornings vegna Exeter-málsins og var fluttur í yfirheyrslu.

Styrm­ir Þór var ákærður fyr­ir meinta hlut­deild á tíma sínum sem forstjóri MP banka, í umboðssvik­um fyrr­ver­andi stjórn­ar­formanns og spari­sjóðsstjóra Byrs. Þeim var gefið að sök að hafa mis­notað aðstöðu sína hjá spari­sjóðnum og stefnt fé hans í hættu með því að fara út fyr­ir heim­ild­ir lán­veit­inga rétt fyr­ir fjár­mála­hrunið 2008.

Í júní 2011 fór málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og voru þeir allir þrír sýknaðir. Ári síðar dæmdi Hæstiréttur umrædda stjórnendur Byrs í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik en í tilfelli Styrmis Þórs var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur ómerktur og málið hans sent aftur í hérað til endurupptöku. Nýr héraðsdómur tók málið fyrir og Styrmir Þór var á ný sýknaður í ársbyrjun 2013.

Styrmir Þór segir að sýknudómur Héraðsdóms Reykjavíkur hafi verið mjög skýr; sakborningur saklaus af ákærum, framburður sakbornings verið trúverðugur og studdur af framburði annarra vitna. Hæstiréttur tók mál hans aftur fyrir nokkrum mánuðum síðar og kvað upp dóm í október 2013.