Ný ríkisstjórn fyrirhugar að stytta tímabilið sem hægt er að vera samfleytt á framfærslu atvinnuleysistrygginga. Gert er ráð fyrir að áhrifanna byrji að gæta frá árinu 2027, að því er segir í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030.

Nú er hámarkstímabil tvö og hálft ár sem er það lengsta á Norðurlöndunum. Stefnt er að því að stytta tímabilið hér á landi til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndunum.

„Aðgerðir til að draga úr langtímaatvinnuleysi hafa skilað miklum árangri og reynslan sýnt að snemmtæk íhlutun skiptir þar sköpum. Því lengur sem fjarvera einstaklings frá vinnumarkaði varir þeim mun ólíklegra er viðkomandi snúi til baka á vinnumarkað. Brýnt er þannig að fjarveran sé ekki of löng.“

Samhliða styttingu bótatímabilsins verði aukin áhersla lögð á úrræði sem ætlað er að hjálpa fólki aftur á vinnumarkað sem hefur verið lengi án atvinnu sem og fólki sem hefur fullnýtt rétt sinn hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

„Það er ekki svo að flestir sem rekast í þak atvinnuleysisbótatímabilsins þurfi að sækja í önnur úrræði því gögn Vinnumálastofnunar benda til þess að meirihluti fólks sem fullnýtir rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins fari aftur á vinnumarkað,“ segir í fjármálaáætluninni.

Fram kemur að stefnt sé að fleiri breytingum á Atvinnuleysistryggingasjóði sem snúi að auknu eftirliti með greiðslum úr sjóðnum til að draga úr bótasvikum og breytingum á ávinnslutímabili atvinnuleysistrygginga.

Útgjaldarammi málefnasviðsins lækkar um 1,9 milljarða

Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðs Vinnumarkaðar og atvinnuleysis lækki um 1,9 milljarða króna á tímabili áætlunarinnar.

Stærstu breytingarnar snúa að útgjöldum vegna atvinnuleysistrygginga en áætlað er að framlögin aukist um 930 milljónir króna árið 2026. Ári síðar er áætlað að útgjöld dragist saman um 3,5 milljarða króna „vegna minna atvinnuleysis og breytinga á reglum og rekstri Atvinnuleysistryggingasjóðs“.

Framlög vegna endurhæfingarlífeyris aukist verulega

Í greinargerð um málaflokkinn segir að sömu áherslur séu að finna í úrræðum sem tengjast nýju örorkulífeyriskerfi sem tekur gildi 1. september 2025 þar sem áhersla sé lögð á að aðstoða fólk með skerta starfsgetu við að fá störf á vinnumarkaði.

„Í nýju kerfi getur fólk í fyrsta sinn fengið svokallaðan hlutaörorkulífeyri þar sem frítekjumörk eru hærri en í öðrum bótaflokkum sem býr til sterkari hvata en áður fyrir fólk með mismikla starfsgetu til að taka þátt á vinnumarkaði. Í nýju örorkulífeyriskerfi er líka rík áhersla á endurhæfingu en í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að framlög vegna endurhæfingarlífeyris aukist verulega.“