Ef við horfum á orkumálin þá væri tímabært að einfalda reglugerðir í kringum framkvæmdir og stytta undirbúningstíma áður en kemur að útboðum. Það fer mikill tími bæði í ákvörðunartökuna sjálfa og allar leyfisveitingar,“ segir Karl Andreassen, forstjóri Ístaks.
Hann segir kæruferlið í kringum orkuframkvæmdir ekki nægilega skilvirkt. Það gangi ekki að verkefni stöðvist þegar komið sé á lokametrana á undirbúningstíma og nefnir hann Hvammsvirkjun sem dæmi.
„Það ætti að reyna að stytta ferlið þannig að þeir aðilar sem vinna í orkumálum leiðist ekki svona langt með verkefnið og eru síðan stöðvaðir á lokafasa. Það þarf að fá umsagnaraðila til að koma með sínar athugasemdir fyrr, en ekki á lokametrunum eins og við sáum með Hvammsvirkjun. Það þarf meiri skilvirkni þegar kemur að þessu. Ég er hræddur um að það sé ekki búið að leysa alla hnúta til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, þ.e. að hægt sé að tefja nauðsynlega uppbyggingu á orkuframkvæmdum á lokametrunum út af tæknilegum atriðum eins og þegar framkvæmdaleyfi Orkustofnunar vegna Hvammsvirkjunar var felt úr gildi.“
Hann segir stjórnvöld vera með óskýra stefnu í orkumálum, t.d. þegar komi að útflutningi hennar.
„Það er ekki vilji fyrir sæstreng, að selja orku úr landi með þeim hætti. En á sama tíma er gefið grænt ljós á að orkufyrirtæki selji erlendum aðilum þau megavött sem eru framleitt hér heima, til að framleiða útflytjanlega orku. Megavött sem gætu farið í orkuskiptin eða aðra framleiðslu innanlands. Maður spyr sig hvort það sé eitthvað öðruvísi en sæstrengur. Það er mikil umræða og margir aðilar áhugasamir að koma hingað og byggja eitthvað upp. En ég efast um að stjórnvöld séu með skýr svör hvað þessir aðilar geta gert hér. Hvort það sé einhver stefna í þessum málum,“ bætir Karl við.
Viðtalið birtist í sérblaðinu Iðnþing 2024. Hægt er að lesa það í heild hér.