Borgaryfirvöld í Tókýó hyggjast leyfa starfsfólki sínu að vinna fjögurra daga vinnuvikur til að stuðla að aukinni fæðingatíðni í borginni. Financial Times greinir frá.
Verkefnið, sem hefst í apríl næstkomandi, mun gera þúsundum borgarstarfsmanna kleift að aðlaga vinnutíma sína þannig að þeir geti fækkað vinnudögum innan vikunnar um einn. Hugmyndin er að aukinn frítími og meiri sveigjanleiki í vinnutíma ætti að gera barnauppeldi meira heillandi.
Í umfjöllun FT kemur fram að útlit sé fyrir að mannfjöldi Japans muni dragast saman sextánda árið í röð. Fæðingartíðni í Tókýó dróst saman um meira en 15% á milli áranna 2012 og 2022.
Áætlað er að fjöldi fæddra barna í Japan í ár fari undir 700 þúsund í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust árið 1899. Til samanburðar fór fjöldi fæddra barna undir eina milljón árið 2016 og undir 800 þúsund árið 2022 þrátt fyrir ýmsar hvataaðgerðir stjórnvalda.
Japanska hagkerfið er þegar að glíma við skort á vinnuafli og hæsta hlutfall eldra fólks í heimi. Shigeru Ishiba, forsætisráðherra Japans, varaði nýlega við að lýðfræðin í Japan kalli á neyðaraðgerðir og geti að óbreyttu falið í sér meiriháttar áskoranir fyrir þjóðina.
Aðgerðir borgaryfirvalda í Tókýó hafa að undanförnu einkennst af auknum mæli af örvæntingu. Borgarstjórnin setti á fót stefnumótaapp fyrr á árinu með það fyrir augum að formleg tenging borgarinnar við smáforritið og strangar reglur um aðild myndi draga úr áhyggjum notenda og laða að einstaklinga sem hafa áhuga á að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldur. Þannig þurfa notendur að lofa að þeir noti smáforritið í þeim tilgangi að finna maka fremur en að leitast eftir skammtímasamböndum.