Bandaríkin hafa stöðvað alla hernaðaraðstoð til Úkraínu, að sögn heimildarmanna innan Hvíta hússins en Financial Times greinir frá.
Ákvörðunin kemur í kjölfar harðra orðaskipta milli Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í Hvíta húsinu á föstudaginn var.
Ákvörðunin þýðir að hin stöðuga birgðakeðja hergagna og annars stuðnings sem Bandaríkin hafa veitt Úkraínu frá því að Rússland hóf innrás sína fyrir þremur árum er nú rofin.
Heimildarmaður innan Hvíta hússins segir að forsetinn sé staðráðinn í að ná friði og að bandamenn Bandaríkjanna þyrftu einnig að vera skuldbundnir því markmiði. „Við erum að gera hlé á og endurskoða aðstoðina til að tryggja að hún stuðli að lausn,“ sagði heimildarmaðurinn.
Trump hefur undanfarna daga aukið þrýstinginn á Selenskí að ná samkomulagi við Rússland. Hann sakaði Selenskí um að vera ósamvinnuþýðan og sagði að hann myndi ekki vera lengi í embætti ef hann næði ekki samkomulagi við Moskvu.
„Mér finnst hann einfaldlega eiga að vera þakklátari, því þetta land hefur staðið með þeim í gegnum súrt og sætt,“ sagði Trump um Selenskí.
Ákvörðunin hefur vakið hörð viðbrögð. Oleksandr Merezhko, formaður utanríkismálanefndar úkraínska þingsins, sagði að ákvörðunin væri „ótrúleg“ og að það væri „of mikið“ að stöðva hernaðaraðstoðina.
Institute for the Study of War í Washington varaði við því að ákvörðunin myndi grafa undan markmiði Trumps um að ná sjálfbærum friði í Úkraínu.
„Rússland mun nýta sér stöðvun bandarískrar aðstoðar til að ná meira landsvæði í Úkraínu og reyna að þreyta evrópskan stuðning. Þetta styður nákvæmlega þá nálgun sem Pútín hefur lýst í sigurstefnu sinni,“ sagði stofnunin.
Evrópskir leiðtogar hafa lýst yfir áhyggjum og eru að skoða leiðir til að auka sinn eigin hernaðarstuðning við Úkraínu.
Heimildarmenn FT innan rússneskra stjórnvalda hafa látið í ljós ánægju með ákvörðun Trumps.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti telur að stöðvunin muni veikja Úkraínu og auka líkurnar á því að Rússland nái yfirráðum á fleiri landsvæðum.
Hlutabréf í varnarfyrirtækjum Í Evrópu hækkuðu í kjölfar tilkynningarinnar. Hlutabréf Rheinmetall hækkuðu um 5 prósent, BAE Systems um 2,5 prósent og Thales um 10 prósent.
Demókratar hafa fordæmt ákvörðunina og kallað eftir því að hún verði afturkölluð. Brendan Boyle, þingmaður demókrata frá Pennsylvaníu, sagði að ákvörðun Trumps væri „kærulaus, óverjandi og bein ógn við þjóðaröryggi okkar“.
„Heimurinn fylgist með og við höfum ekki efni á því að láta kærulausar aðgerðir Trumps grafa undan skuldbindingu okkar við bandamenn okkar og lýðræðið sjálft,“ sagði Boyle.