Bandaríska samlokukeðjan Subway hefur fengið ráðgjafa til að kanna mögulega sölu á fyrirtækinu, samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal.

Söluferlið er enn á fyrstu stigum en talið er að Subway sé aðlaðandi fyrir framtakssjóði eða sem yfirtökumarkmið. Subway gæti verið metið á yfir 10 milljarða dala, eða yfir 1.400 milljarða króna, að sögn heimildarmanna, en óvíst er þó hvort af sölunni verði.

Subway er með tæplega 21 þúsund veitingastaði í Bandaríkjunum, flest allra bandarískra skyndibitakeðja. Fyrirtækið velti 9,4 milljörðum dala árið 2021, eða sem nemur 1.350 milljörðum króna á gengi dagsins. Alls er fyrirtækið með 37 þúsund staði víðs vegar um heim.

Subway var um tíma stærsta skyndibitakeðja heims með um 18 milljarða dala í sölu árið 2012. Fyrirtækið hefur síðan fækkað stöðum og nokkrir sérleyfishafar hafa yfirgefið vörumerkið.

Samlokukeðjan var rekin af meðstofnandanum Fred DeLuca um nokkurra áratuga skeið þar til hann var greindur með hvítblæði. Hann lést árið 2015. Systir hans, Suzanna Greco, tók þá við stjórnartaumunum en settist í helgan stein árið 2018. Peter Buck, sem lánaði DeLuca þúsund dali árið 1965 til að opna samlokustað í borginni Bridgeport í Connecticut-fylki og aðstoðaði við að byggja upp fyrirtækið lést árið 2021.

John Chidsey tók við sem forstjóri Subway árið 2019 en hann var fyrsti einstaklingurinn til að stýra skyndibitakeðjunni sem er ekki tengdur fjölskylduböndum við stofnendurna tvo. Hann hefur fækkað veitingastöðum, ráðist í endurskipulagningu á rekstrinum og einblínt á matseðil og gæði, að því er kemur fram í umfjöllun WSJ.