Suður-Kórea hefur bannað niðurhal af kínverska gervigreindarforritinu DeepSeek en ríkisstofnunin sem sér um persónuvernd þar segir að smáforritið verði aftur aðgengilegt eftir að úrbætur verði gerðar til að tryggja að það uppfylli lög í landinu.
Á fréttasíðunni BBC segir að kínverska gervigreindarforritið hafi notið mikilla vinsælda í Suður-Kóreu og sé nú komið með yfir milljón notendur í hverri viku.
Þessi aukning í vinsældum hefur þó einnig orðið til þess að takmarkanir hafa verið settar á smáforritið vegna áhyggna um persónuvernd og þjóðaröryggi. Persónuverndarnefnd Suður-Kóreu bannaði þá appið í Apple App Store og Google Play á laugardaginn.
Choi Sang-mok, starfandi forseti Suður-Kóreu, segir að DeepSeek gæti haft áhrif á iðnaðargreinar í landinu og hafa suðurkóreskar ríkisstofnanir bannað starfsmönnum sínum að hlaða niður forritinu í vinnutæki sín.
Taívanir og Ástralir hafa þá einnig bannað DeepSeek í öllum opinberum tækjum. Ítalska eftirlitsstofnunin, sem bannaði ChatGPT árið 2023, hefur einnig tekið sömu ákvörðun með kínverska forritið og vill að tekið verði á áhyggjum um persónuvernd.