Úrvalsvísitalan stóð nánast í stað í 1,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Til samanburðar var meðalvelta á íslenska hlutabréfamarkaðnum um 3 milljarðar á dag í júnímánuði. Tíu félög aðalmarkaðarins hækkuðu og tólf lækkuðu í viðskiptum dagsins.
Yfir þriðjungur veltunnar var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 1,7%, mest af félögum aðalmarkaðarins í dag. Gengi Arion banka stendur nú í 132,25 krónum á hlut og er um 7,7% lægra en í upphafi árs.
Auk Arion þá lækkaði hlutabréfaverð Skeljar, Haga og Ölgerðarinnar um meira en 1% í dag.
Þrjú félög hækkuðu um eitt prósent eða meira í dag en það voru Eimskip, Íslandsbanki og Skagi.
Gengi Eimskips, sem hækkaði um 1,8% eða mest félaga Kauphallarinnar í dag, hefur nú hækkað um 11,5% frá því í maí þegar það fór lægst á þessu ári í 312 krónur. Hlutabréfaverð Eimskips er þó enn 24% lægra en í upphafi árs.