Í síðasta mánuði lagði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fram frumvarp um félagafrelsi á vinnumarkaði. Frumvarpinu er ætlað að tryggja stjórnarskrárvarinn rétt launafólks, sem flokkurinn telur að hafi fram til þessa að mörgu leyti verið virtur að vettugi á íslenskum vinnumarkaði.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur meðal annars fram að íslenska ríkinu beri skylda til að gæta að mannréttindum borgara sinna og verði að grípa til aðgerða þegar löggjöf gengur gegn þeim réttindum með lagabreytingum.
Þá er einnig tekið fram að félög utan vinnumarkaðarins séu undanþegin gildissviði laganna, en aftur á móti kunni að vera nauðsynlegt að ráðast einnig í lagasetningu á þeim sviðum þar sem félagafrelsið er ekki tryggt, eins og til dæmis hvað varði skylduaðild að lífeyrissjóðum.
Saga skylduaðildar að lífeyrissjóðum hér á landi er löng og á rætur sínar að rekja til samkomulags Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Félags íslenskra iðnrekenda frá árinu 1969, þar sem ákveðið var að lífeyrissjóðir skyldu stofnaðir og starfræktir á félagsgrundvelli með skylduaðild.
Árið 1974 var skylda launafólks til að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar svo fest í lög. Kjarasamningsbundin aðild að lífeyrissjóðum er algeng á íslenskum vinnumarkaði og getur stór hluti launþega því í raun ekki valið um hvaða lífeyrissjóð þeir greiða í.
Þetta launafólk hefur ekki einvörðungu takmarkað valfrelsi þegar kemur að lífeyrissjóðum, heldur hefur það einnig takmarkað val þegar kemur að ráðstöfun síns lífeyris. Aftur á móti er lausnin vandfundin, kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru grunnurinn að þessu kerfi og ríkið á ekki aðild að þeim.
Fréttin er hluti af lengir umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 3. nóvember.