Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra sagði á Innviðaþingi í morgun að Sundabraut gæti orðið fyrsta verkefni fyrirhugaðs Innviðafélags ríkisins þar sem horft er til aðkomu langtímafjárfesta á borð við lífeyrissjóði að fjármögnun að stórum samgönguframkvæmdum.
„Til lengri tíma horfum við til risaverkefna sem munu móta framtíð íslensks samfélags. Þar stendur bygging Sundabrautar upp úr sem er þjóðhagslega hagkvæmasta framkvæmd Íslandssögunnar,“ sagði Eyjólfur.
Fram kom í máli hans að gert sé ráð fyrir að umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar fari í lögbundna kynningu fyrir almenning í september. „Að loknu mun ég taka ákvörðun hvort Sundabraut verði brú eða göng,“ sagði ráðherrann.
Markmiðið sé að framkvæmdir við Sundabraut hefjist á árinu 2027 og að hún verði opnuð eigi síðar en 2032.
Unnið hefur verið að undirbúningi Sundabrautar um nokkurra ára skeið. Sérstök verkefnastjórn tók til starfa árið 2022 til að hafa umsjón með og fylgja eftir undirbúningi Sundabrautarverkefnisins. Í mars síðastliðnum skipaði innviðaráðherra starfshóp um fjármögnun Sundabrautar. Fram kom í tilkynningu ráðuneytisins að heimilt verði að innheimta veggjöld.
„Verkefnið verður langstærsta einstaka verkefnið í samgöngukerfi landsins en miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir má gera ráð fyrir að árleg fjárfesting vegna verkefnisins geti numið á bilinu 20-25 milljörðum króna,“ segir í umræddri tilkynningu.
Eyjólfur sagði í morgun að Sundabraut verði „algjörlega greidd með veggjöldum“.
Ríkisstjórnin tilkynnti í lok mars um áform um stofnun Innviðafélags ríkisins en horft er til þess að það muni sjá um fjármögnun stærri samgönguframkvæmda, s.s. vegna jarðganga og sambærilegra flýtiframkvæmda.
Í fjárhagsáætlun 2026-2030 kemur fram að slíku innviðafélagi mætti leggja til eigið fé frá ríkinu, t.a.m. í formi fyrirliggjandi samgönguinnviða til að búa til tekjustreymi sem nýtt yrði til að ráðast í arðsamar nýframkvæmdir og uppfærslu á eldri innviðum. Mögulegt væri að veita slíkum aðila heimildir til lántöku, þar sem framtíðartekjustreymi af samgönguinnviðum yrði veðsett til að fjármagna arðbærar fjárfestingar í nýjum samgönguinnviðum.
Í erindi Eyjólfs í morgun nefndi hann einnig að ríkisstjórnin horfi til nýrrar Ölfusárbrúar sem áætlað er að verði tekin í notkun haustið 2028. Þar sé horft til veggjalda að hluta.
Þá nefndi ráðherrann einnig að ríkisstjórnin stefni á að auka árlegt framlag ríkisins til samgönguinnviða úr 0,6% af VLF í 1%.
Þá sé eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar er að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð og stefnt sé að því að hefja nýjar jarðgönguframkvæmdir árið 2027 „af fullum þunga“.