Sundabrú er hentugri valkostur en Sundagöng. Þetta er niðurstaða starfshóps sem starfaði á vegum Vegagerðarinnar en auk hennar komu Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir og Samstök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að vinnu hópsins.
Að mati starfshópsins er líklegt að unnt sé að hefja framkvæmdir við Sundabraut árið 2025 og taki fjögur til fimm ár. Kostnaðurinn við þverun Kleppsvíkur með brú er áætlaður 44 milljarðar króna en kostnaður við jarðgöng allt að 58 milljarðar króna. Kostnaður við framkvæmdina í heild er ávallt áætlaður um 25 milljörðum króna hærri. Samþykkt hefur verið að Sundabraut verði fjármögnuð að hluta með innheimtu vegtolla.
Í skýrslunni er gerð tillaga um að Sundabrú verði 1.172 m löng með 14 höfum. Fjórar akreinar yrðu á brúnni og sérstök göngu- og hjólaleið á austurkanti brúarinnar. Um helmingur brúarinnar yrði yfir Kleppsvík en hinn helmingurinn á landi að vestanverðu. Brúin myndi rísa í 35 m hæð yfir hafflötinn með 30 m siglingahæð og 100 m breiðri siglingarennu. Með þessu er gert ráð fyrir að hægt verði að sigla undir Sundabrú til að nýta áfram hafnarbakka innan brúarinnar.
Í tillögum sínum bendir starfshópurinn á að mikilvægt sé að skoða nánar líklegar breytingar á dreifingu umferðar og hvernig bregðast eigi við mögulegum neikvæðum áhrifum á íbúahverfi á áhrifasvæði Sundabrautar. Einnig þurfi að huga vel að innra gatnakerfi norðan Sæbrautar og tryggja nauðsynlegt flæði umferðar um Vatnagarða, Barkarvog og Skútuvog.
„Niðurstöður starfshópsins staðfesta sannfæringu mína um að Sundabraut bæti samgöngur, hvort tveggja fyrir íbúa höfuðborgarsvæðis og íbúa landsbyggðar. Það er sérstaklega ánægjulegt að Sundabrú muni geta eflt almenningssamgöngur og styðja við fjölbreytta ferðamáta. Með því að stytta ferðatíma og dreifa umferð bætum við lífsgæði fólks. Niðurstöður um að Sundabrú sé hagkvæmari kostur eru afgerandi og að mínu mati er ekkert því til fyrirstöðu að taka næstu skref og hefja framkvæmdir við Sundabraut,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.