Íslenska sprotafyrirtækið Sundra lauk á dögunum 34 milljóna króna englalotu sem var leidd af fjárfestingarsjóðunum Nordic Ignite og Founders Ventures. Sundra, sem einnig hefur hlotið styrki frá Tækniþróunarsjóði, hefur með þessari fjármögnun tryggt sér nægt fjármagn til að hraða þróun og fara í markvissari markaðs- og söluaðgerðir í Evrópu og Norður-Ameríku.
Sprotafyrirtækið, sem var stofnað í maí 2022 af Hauki Guðjónssyni, Magnúsi Þór Jónssyni og Þórunni Jónsdóttur, sérhæfir sig í notkun gervigreindar til að sjálfvirknivæða eftirvinnslu á upptökum viðburða.
„Öll þau sem hafa skipulagt viðburði vita hausverkin sem fylgir því að umbreyta viðburðinum í myndbandsefni. Við höfum því búið til hugbúnaðarlausn sem getur tekið heila ráðstefnu og full-unnið allt myndbandsefni fyrir hana á 60 mínútum í staðinn fyrir 4-5 vikum,“ segir Haukur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sundra.
Notendur hlaða upptökum af viðburðum inn í kerfi Sundra og það skilar af sér fullunnum myndböndum af hverjum og einum fyrirlesara. Myndbrotin eru svo aðlöguð fyrir alla samfélagsmiðla og tilbúin til birtingar.

„Lausn Sundra er mögnuð og algjörlega tímabær. Teymið er framúrskarandi og tímasetningin fyrir lausnina er góð. Við trúum því að viðburðahaldarar hérlendis og erlendis muni sjá mikla þörf fyrir lausn eins og þessa,“ segir Ragnheiður H. Magnúsdóttir, stjórnarformaður Nordic Ignite.
„Við viljum styðja við verkefni sem drifin eru áfram af framúrskarandi stofnendum sem vinna hörðum höndum að því að leysa krefjandi vandamál. Haukur endurspeglar það sem við teljum vera einkennandi fyrir fyrirtæki sem ná langt,“ segir Bala Kamallakharan hjá Founders Ventures sem telur að Sundra geti orðið leikbreytir á sínu sviði.
Fjallað er um fjármögnunarlotu Sundra í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.