Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að leyfa hvalveiðar að nýju en með ströngum skilyrðum. Með reglugerðinni er brugðist við niðurstöðum eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um veiðar á langreyðum árið 2022.
Líkt og kunnugt er stöðvaði Svandís Svavarsdóttir hvalveiðar í sumar með frestun til 1. september sem ber upp á morgun og mun vertíðin þá hefjast.
Ákvörðun Svandísar olli mikilli ólgu innan ríkisstjórnarinnar enda var hvalveiðabann hvergi nefnt í stjórnarsáttmála.
Svandís ákvað að stöðva veiðar tímabundið á grundvelli skýrslu fagráðs um velferð dýra en að mati ráðsins voru hvalveiðar ekki í samræmi við lög um velferð dýra.
„Skilyrði laga um velferð dýra eru ófrávíkjanleg í mínum huga, geti stjórnvöld og leyfishafar ekki tryggt kröfur um velferð á þessi starfsemi sér ekki framtíð,“ sagði Svandís þegar ákvörðunin var kynnt.
Aðspurð um hvort ákvörðun Hollywood-leikara að sniðganga Ísland ef hvalveiðar verði leyfðar segir ráðherra að slíkt sé ekki á hennar borði. „Við erum alltaf með heildarmyndina undir, en það sem heyrir undir mína löggjöf er velferð dýra.“
Ákvörðunin lagalega tæp
Samkvæmt lögfræðiáliti LEX lögmannsstofu sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) lét vinna fór ákvörðun ráðherra í bága við lög og ekki reist á nægjanlega traustum lagagrundvelli.
SFS leitaði eftir áliti frá LEX degi eftir ákvörðun Svandísar var kynnt, 20. júní.
„Afar hæpið verður að teljast að ákvæði 4. gr. laga nr. 26/1949 um hvalveiðar færi ráðherra heimild til að setja reglugerð sem stöðvar í reynd veiðar á langreyðum fyrirvaralaust eða kemur beinlínis í veg fyrir að veiðirétthafar geti nýtt réttindi sín. Ákvörðun ráðherra var því ekki reist á viðhlítandi lagaheimild sem stenst kröfur 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 72. gr. Stjórnarskrár,“ segir í niðurstöðu kafla álitsins.
Í álitinu segir einnig að fyrirmæli ráðherra, í formi reglugerðar, um tímabundið hvalveiðibann, sem útilokar nær alfarið starfsemi leyfishafa á árinu 2023, án fyrirvara eða aðlögunartíma, standist vart þær kröfur sem leiða af meginreglunni um stjórnskipulegt meðalhóf.