Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir bættist nýlega við eigendahóp Besteseller á Íslandi og tók samhliða við sem starfandi stjórnarformaður en fyrir var Grímur Garðarsson einn eigandi.
Bestseller á Íslandi (V.M. ehf.) rekur 15 verslanirnar á Íslandi undir merkjum Vero Moda, Vila, Jack & Jones, Selected, Name It barnafataverslun og íþróttaverslun Jóa Útherja. Fyrirtækið velti tæplega 2,2 milljörðum á síðasta ári, að því er kemur fram í tilkynningu.
Svanhildur Nanna hefur frá árinu 2007 starfað sem fjárfestir og stýrt eigin fjárfestingum samhliða stjórnarsetu í ýmsum fyrirtækjum. Hún var m.a. stjórnarformaður Skeljungs og VÍS og situr nú í stjórn íslenska nýsköpunar- og matvælafyrirtækisins GoodGood.
Fyrir þann tíma starfaði Svanhildur sem framkvæmdastjóri fjárstýringar Straums fjárfestingarbanka 2005-2007, forstöðumaður fjármögnunar hjá Kaupþingi 2002-2005, forstöðumaður netviðskipta Íslandsbanka FBA 2000-2002 og sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Fjárfestingabanka atvinnulífsins 1999-2000.
„Bestseller á Íslandi stendur á ákveðnum tímamótum. Verslanir félagsins hafa langa sögu og verðmætan viðskiptavinahóp. En tímarnir breytast og mennirnir með,“ segir Svanhildur Nanna.
„Umhverfi smásölu á Íslandi hefur breyst hratt á síðustu árum, þar sem sjálfvirknivæðing gefur forskot, straumlínuvæðing á innviðum er óhjákvæmileg og stafræn markaðssetning og viðskipti eru allsráðandi. Fyrirtæki og verslanir á Íslandi verða að taka þátt í þróuninni ætli þær að standast erlenda samkeppni sem áður þekktist ekki. Við sjáum fjölmörg tækifæri framundan samhliða því að styrkja innviði félagsins og gera það í stakk búið til að vaxa á núverandi mörkuðum og með kaupum á félögum í tengdum rekstri.“
Sandra Björg og Katrín Sigríður nýir stjórnendur
Ásamt Svanhildi Nönnu hafa þær Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann og Sandra Björg Helgadóttir gengið til liðs við Bestseller á Íslandi.
Sandra Björg Helgadóttir hefur tekið við stöðu yfirmanns verslunarsviðs Bestseller á Íslands. Hún kemur frá Rammagerðinni þar sem hún starfaði sem vöru- og markaðsstjóri. Hún starfaði í nokkurn tíma sem vörumerkjastjóri PepsiCo vörumerkjanna hjá Ölgerðinni. Árið 2019 fór hún þaðan í sjálfstæðan rekstur og rekur m.a. heilsufyrirtækið Absolute Training.
Sandra er með iðnaðarverkfræðigráðu frá Háskóla Íslands frá árinu 2014 og lauk MBA námi frá Loyola Marymount University, í Californíu, í maí 2023.
„Ég er virkilega spennt og þakklát fyrir tækifærið að koma til Bestseller. Mér finnst mjög heillandi að vinna fyrir alþjóðlegt fyrirtæki og ég hef lengi fylgst með rekstri Bestseller á heimsvísu. Fyrirtækið er með gildi sem eiga vel við mig og mér finnst það skipta lykil máli þegar maður er að taka svona ákvörðun. Bestseller er með 20 sterk vörumerki sem hafa stimplað sig vel inn hjá Íslendingum og ég hlakka til að byggja ofan á þá flottu vinnu sem þegar hefur átt sér stað hjá Bestseller frá upphafi hér á Íslandi og erlendis," segir Sandra.
Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann hefur tekið við sem markaðsstjóri Bestseller á Íslandi. Hún starfaði síðast sem hótelstjóri Center Hotels Arnarhvolls á árunum 2021-2023.
Katrín sat í stjórn Ungra athafnakvenna á árunum 2021-2023, sem markaðsstjóri félagsins og hefur sinnt markaðsstörfum fyrir smærri félög í nokkur ár. Katrín gegnir einnig stöðu framkvæmdastjóra 1881 Góðgerðafélags.
Katrín Sigríður er með gráðu í alþjóðaviðskiptum og hótelstjórnun með áherslu á frumkvöðlafræði frá Les Roches í Sviss, frá árinu 2019 og er að ljúka MiniMBA sem viðurkenndur stafrænn markaðssérfræðingur frá Akademias.
„Bestseller á Íslandi er rótgróið fjölskyldufyrirtæki með sterka markaðshlutdeild. Framundan eru spennandi tímar, og ekki síst, ótal tækifæri fyrir vörumerkin í samstæðunni. Ég er þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt að fá að leiða sviðið og kem inn full tilhlökkunar að byggja á því flotta starfi sem unnið hefur verið og styrkja ímynd vörumerkjanna okkar sem og stafræna sókn fyrirtækisins enn frekar á innlendum markaði,“ segir Katrín.