„Samkvæmt rammaskipulagi Reykjanesbæjar er Ásbrú næsta uppbyggingarsvæði sveitarfélagins en til að þau áform nái fram að ganga er afar mikilvægt að mati eigenda Icelandic Home að umbreyting verði á því sem við köllum hjarta svæðisins en það er svæðið sem afmarkast af Valhallarbraut, Keilisbraut, Suðurbraut og Grænásbraut. Á Ásbrú búa í dag í kringum 4.000 manns og fyrirhuguð uppbygging á nýjum byggingarreitum losar tæpar 1.000 íbúðir,“ Karl Finnbogason og Þorleifur Björnsson, tveir af eigendum Icelandic Home.
Félagið vill reisa nýtt 90- 180 rýma hjúkrunarheimili miðsvæðis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Félagið hefur sent Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum (FSRE) tilboð í verkið en stofnunin sendi snemma á árinu út markaðskönnun þar sem óskað var eftir leiguhúsnæði undir allt að 80-120 hjúkrunarrými á Suðurnesjum.
Til þess að ofangreindar áætlanir um uppbyggingu á Ásbrú geti gengið eftir þurfi uppbygging og nýting núverandi eigna á svæðinu að færast nær því sem tíðkist á öðrum svæðum innan sveitarfélagsins að mati tvímenninganna. Uppbygging á hjúkrunarheimili gæti verið lykillinn að því að hefja slíka vegferð.
Eigendur Icelandic Home hafa kynnt áform sín fyrir fulltrúum sveitarfélagsins og Kadeco og öðrum hagaðilum á svæðinu með það fyrir augum að afla hugmyndinni stuðnings. Að sögn þeirra hafa þróunarfélagið Kadeco, sem heldur utan um skipulag og þróun lands í eigu ríkisins á Ásbrú, og yfirvöld í Reykjanesbæ tekið vel í fyrirætlanir Icelandic Home. Telja þessir aðilar að áformin falla vel að hugmyndum þeirra um framtíðarþróun svæðisins og þróunaráætluninni K64 fyrir flugvallarsvæðið, sem Kadeco kynnti fyrir rúmum tveimur árum. Að mati Reykjanesbæjar, sem fer með skipulagsvaldið á svæðinu, sé eingöngu talið að fara þurfi með áformin í grenndarkynningu en verkefnið falli að öðru leyti innan gildandi skipulags.
Að lokum segja þeir að nú séu liðin nítján ár frá því að ríkið tók yfir eignir varnarliðsins á Ásbrú og þrátt fyrir að margt gott hafi verið gert sé knýjandi að halda því verki áfram af auknum krafti. Framtíð Ásbrúar sé björt og tækifæri nú til að byggja upp umhverfi sem geti orðið eftirsótt til búsetu í Reykjanesbæ. Uppbygging hjúkrunarheimilis á svæðinu sé liður í þeirri vegferð.
Eftirspurnin sveiflukennd
Þeir benda á að hingað til hafi samfélagið á Ásbrú einkennst af því að stór hluti íbúa sest þar að til skamms tíma starfa sinna vegna. Aukinn ferðamannastraumur hafi orðið til þess að fjöldi starfsmanna í flugtengdri starfsemi jókst verulega og framboð á hagkvæmu húsnæði á Ásbrú hafi þá komið sér vel. Þessi eftirspurn hafi verið og sé enn mjög sveiflukennd og hafi til að mynda dottið alfarið niður á Covid tímum, sem hafi leitt af sér offramboð á húsnæði. Þá hafi ríkið leigt margar eignir á svæðinu tímabundið undir flóttafólk í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu og aukinn fjölda hælisleitenda, sem virðist nú í rénun. Loks hafi jarðhræringar í Grindavík haft umtalsverð eftirspurnaráhrif.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.