„Út frá grunnstarfseminni var uppgjörið mjög gott. Vaxta- og þóknunartekjur hækkuðu um 6% frá sama fjórðungi í fyrra og það var mjög góður taktur innan grunnviðskiptaeininga bankans. Aftur á móti eru þessar miklu hreyfingar á mörkuðum að setja strik í reikninginn. Hlutabréfaverð hefur verið sveiflukennt og leitað niður á við, sem hefur áhrif á og dregur niður arðsemina á fjórðungnum,“ segir Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, um uppgjör fyrsta ársfjórðungs hjá bankanum.
Íslandsbanki hagnaðist um 5,2 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 5,4 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár hjá Íslandsbanka á fjórðungnum nam 9,4% á ársgrundvelli, en til samanburðar var hún 9,8% á fyrsta fjórðungi 2024.
Þrátt fyrir að arðsemi eigin fjár hafi verið undir 10% arðsemismarkmiði bankans á fyrsta ársfjórðungi reiknar Jón Guðni með að arðsemin verði yfir markmiði á þessu ári og að kostnaðarhlutfall verði undir 45%. „Ég reikna síður með að það verði jafn miklar sveiflur á mörkuðum á næstu þremur fjórðungum og voru á þeim fyrsta,“ segir Jón Guðni. Hann bendir jafnframt á að ársfjórðungar séu miskostnaðarþungir. „Yfirleitt er kostnaður hár á fyrsta ársfjórðungi en svo mun lægri á þriðja ársfjórðungi þegar fólk er t.d. í sumarfríi. Þegar horft er yfir árið í heild lítur það vel út.“
Hreinar vaxtatekjur bankans námu 12,9 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi og hækkuðu um 817 milljónir á milli ára. Vaxtatekjur bankans jukust því um tæp 7% og hreinar þóknanatekjur um tæp 2% og námu 3,1 milljarði á fjórðungnum. Neikvæð afkoma fjármunatekna, sem nam 986 milljónum króna, hafði áhrif á afkomu bankans á fjórðungnum. Aftur á móti var virðisrýrnun fjáreigna aðeins um 3 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2025 samanborið við virðisrýrnun sem nam 704 milljónum króna á sama tímabili í fyrra.
Nánar er rætt við Jón Guðna í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér og viðtalið í heild hér.