Hlutabréfaverð Íslandsbanka byrjaði vikuna á að hækka um 3,5% í viðskiptum mánudagsins en gengið hefur síðan lækkað um rúm 3% síðustu tvo daga.
Dagslokagengi Íslandsbanka var 112,5 krónur eftir um 311 milljón króna viðskipti.
Gengi bankans tók verulega við sér um miðjan september og fór úr rúmlega 98 krónum í 117 krónur á tæpum þremur vikum. Samsvarar það um 19% hækkun.
Á síðustu vikum hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið ásamt fjármálaráðgjöfum unnið að því að undirbúa sölu á helmingi alls hlutar ríkisins í bankanum.
Ríkið á um 850 milljón hluti í Íslandsbanka sem samsvarar um 42,5% hlut en til stóð að selja um helming allra hluta ríkisins fyrir árslok og síðan yrði eftirstandandi hlutur seldur á næsta ári.
Samkvæmt svörum fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins liggur ekki ákvörðun fyrir um hvort ráðist verður í sölu á hlutum ríkisins í bankanum fyrir árslok.
Hlutabréf í Ölgerðinni leiddu hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi drykkjarframleiðandans fór upp um rúm 3% í viðskiptum dagsins. Gengi Ölgerðarinnar hefur lækkað töluvert í októbermánuði en Ölgerðin birti árshlutauppgjör á dögunum þar sem afkomuspá fyrir árið var lækkuð.
Dagslokagengi Ölgerðarinnar er 16,6 krónur eftir hækkanir dagsins.
Gengi Icelandair hækkaði einnig um 3% í viðskiptum dagsins en hlutabréfaverð flugfélagsins hefur nú hækkað um 38% síðastliðinn mánuð.
Verðið á Brent hráolíu hélt áfram að lækka í dag og hefur tunnan farið úr 77 dölum í 74 dali síðustu fimm viðskiptadaga sem samsvarar um 4% lækkun.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,08% í dag og var heildarvelta á markaði 4,4 milljarðar.