Hlutabréf Tesla hafa lækkað um 15% á fimm dögum en hækkuðu lítillega við opnun markaðar í Bandaríkjunum. Á vef BBC segir að lækkunin hafi leitt til þess að virði Tesla sé komið undir eitt þúsund milljarða dala í fyrsta sinn síðan í nóvember 2024.
Tesla hefur verið að glíma við mikla samkeppni á Evrópumarkaði frá kínverskum og öðrum erlendum rafbílaframleiðendum.
Greint var frá því í gær að sala Tesla í Evrópu í janúar hafi verið 45% minni en á sama tíma í fyrra. Talið er að afskipti Elons Musk af bandarískum stjórnmálum gætu einnig haft möguleg áhrif á nýjustu sölutölur.
Russ Mold, fjárfestingarstjóri AJ Bell, segir þó að helsti þátturinn í samdrætti Tesla sé aukin samkeppni. Kínverski bílaframleiðandinn BYD hefur til að mynda tekið stórt skref með því að bjóða upp á búnað í bílum sínum sem kostar aukalega hjá öðrum fyrirtækjum.
Forstjóri breska rafbílahleðslufyrirtækisins Zaptec, Peter Bardenfleth-Hansen, sem var jafnframt yfirmaður Tesla í Evrópu, Mið-Austurlöndunum og Asíu og er talinn vera maðurinn sem kynnti Norðmenn fyrir Tesla, segir að stjórnmálaafskipti Musk hafi mikið að segja.
„Það er enginn vafi á því að það að daðra við hægrimenn í pólitík og það að hlaupa um með keðjusög hjálpi ekki beint ímynd hans. Hann gæti verið að fá stærri aðdáendahóp innan ákveðinnar gerðar viðskiptavina, en það eru ekki þeir sem eru að kaupa Tesla.“