Rúmlega 70% þátttakenda í markaðskönnun Viðskiptablaðsins telja að peningastefnunefnd Seðlabankans muni taka ákvörðun um að lækka vexti um 50 punkta á vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 5. febrúar í næstu viku.
18% svarenda telja að lækkunin muni nema 25 punktum. Þá sjá 8% þeirra fram á 75 punkta lækkun. Tveir þátttakenda spá 100 punkta lækkun og þá spáir einn þátttakenda því að vextir haldist óbreyttir.
Könnunin var send á 276 markaðs- og greiningaraðila á miðvikudaginn í síðustu viku og barst 101 svar sem jafngildir 37% svarhlutfalli.
Stýrivextir standa nú í 8,5%. Fram undan á árinu eru sex vaxtaákvörðunarfundir, þar af tveir á skömmum tíma, 5. febrúar og 19. mars. Markaðsaðilar telja að stýrivextir verði lækkaðir um 200 punkta á árinu, eða þar um bil.
Þannig telja 63% þátttakenda að stýrivextir verði á bilinu 6% til 7% í árslok 2025. 17% svarenda sjá fram á að vextir verði komnir niður í á bilinu 5% til 6% í árslok 2025, sem jafngildir að meðaltali 50 punkta lækkun á hverjum einasta fundi ársins. 16% svarenda eru ekki alveg eins brattir í sinni spá og sjá fram á að stýrivextir verði á bilinu 7% til 8% í árslok 2025.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.