Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands telur of tíð skipti milli stjórnarmanna til að gegna formennsku í stjórnum lífeyrissjóða geta dregið úr skilvirkni stjórnar og vera þannig ekki til þess fallin að þjóna hagsmunum sjóðfélaga eins og best verður á kosið.

Þetta kemur fram í dreifibréfi Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til stjórna íslenskra lífeyrissjóða. Í bréfinu er bent á að í sumum lífeyrissjóðum sé sá háttur hafður á að fulltrúar atvinnurekenda og launamanna hafi á hendi formennsku og varaformennsku til skiptis, ýmist til eins eða tveggja ára í senn. Í ljósi ofangreinds mats eftirlitsins um að fyrirkomulagið geti dregið úr skilvirkni stjórnar telur það tilefni til að beina því til umræddra lífeyrissjóða að endurskoða þetta fyrirkomulag með það að leiðarljósi að hafa lengri samfellu í störfum stjórnarformanns, t.d. að lágmarki tvö ár.

Jón Ólafur Halldórsson, formaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) og Landssamtaka lífeyrissjóða, segir dreifibréfið hafa borist LV og það verði tekið til umfjöllunar á stjórnarfundi eftir sumarfrí. Hvað varðar starfstíma stjórnarformanns sé það fyrirkomulag haft hjá LV að fulltrúar vinnuveitenda tilnefni formann í tvö ár og fulltrúar launþega í tvö ár. „Þá hefur skapast sú hefð að samstarf formanns og varaformanns er nokkuð nánara en gjarnan gengur og gerist í almennum fyrirtækjum. Í gegnum tíðina hefur stjórnarmaður sem kjörinn er formaður gjarnan sinnt starfinu í það minnsta í tvö eða fleiri tveggja ára tímabil, þá sem varaformaður þess á milli.“

Færa megi rök fyrir því að ákveðin samfella í setu formanns sé gagnleg til að hann fái sem best sinnt verkefnum sínum eins og þeim sé m.a. lýst í starfsreglum stjórnar og í kafla 3.1 í leiðbeiningum um stjórnarhætti. „Ég tel að áralöng reynsla LV af þessu fyrirkomulagi hafi sýnt að samfella í störfum stjórnarmanna og formanns sé góð. Formanni gefst gott færi á að fylgja eftir þeim verkefnum sem fylgja formennskunni og stuðla þannig að því að stjórn starfi í góðu samræmi við gildandi viðmið um stjórnarhætti. Skipting á formennsku með þessum hætti styður einnig við ákveðna endurnýjun og breidd í störfum stjórnar sem getur verið gagnleg fyrir störf hennar,“ segir hann og bætir við:

„Almennt tel ég að það verði að ætla einstökum lífeyrissjóðum, með sama hætti og fyrirtækjum almennt, gott svigrúm til að velja leiðir í þessum efnum. Enda byggi ákvörðun á ígrundun, taki tillit til viðeigandi sjónarmiða varðandi stjórnarhætti og styðji við farsæl störf stjórnarinnar í heild.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.