Snemma á árinu skrifuðu Íslandsbanki og VÍS undir samstarfssamning en rauði þráðurinn í samstarfinu er að viðskiptavinir sem eru í viðskipti við bæði félög njóta sérstaks ávinnings í vildarkerfum beggja félaga. Þar að auki fá viðskiptavinir betri yfirsýn yfir fjármálavörur og tryggingar. Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, fagnar samstarfinu, enda geri það Íslandsbanka kleift að bjóða viðskiptavinum sínum aukna þjónustu og um leið bæta samkeppnishæfni sína.

„Við höfum skoðað tryggingar um nokkurt skeið eins og samkeppnisaðilar okkar. Við sáum tækifæri til að veita viðskiptavinum okkar enn betri þjónustu og gátum hreyft okkur hratt með því að fara í samstarf með tryggingarfélagi. Með þessu býðst viðskiptavinum bankans betri kjör á tryggingum og um leið einfaldar þetta þeim lífið. Þannig geta þeir nálgast tryggingar frá VÍS í Íslandsbanka smáforritinu og m.a. fengið tilboð af tryggingum þar.“

Eins og Jón Guðni bendir á eru tryggingafélög undir samstæðum stærstu samkeppnisaðila Íslandsbanka, Arion banka og Landsbanka. Spurður um hvort samstarfið verði hugsanlega tekið skrefinu lengra með sameiningu Íslandsbanka og Skaga, eða með öðrum útfærslum, kveðst hann ekki útiloka neitt.

„Það kemur ýmislegt til greina í þessum efnum. Við erum með töluvert umfram eigið fé og því tækifæri til staðar á ytri vexti,“ segir hann en umfram eigið fé bankans nemur um 40 milljörðum króna.

„Íslenski fjármálamarkaðurinn er ekki mjög stór en það eru klárlega nokkur tækifæri til staðar. Allt veltur þetta auðvitað á því hvort félög sem falla þar undir séu til sölu og þá á hvaða verði. Við sjáum helst tækifæri í fjármálatengdri þjónustu, eins og til dæmis á sviði eignarstýringar og trygginga. Að sama skapi höfum við verið að horfa til vaxtar á erlendri grundu. Aðeins 2% af lánabók bankans eru til erlendra fyrirtækja svo það eru hiklaust tækifæri til vaxtar þar,“ bætir hann við.

Nánar er rætt við Jón Guðna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér og viðtalið í heild hér.