Vetraráætlun Icelandair er um 95-104% af framboðinu veturinn 2019-2020, fyrir heimsfaraldur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu. Mest er tíðnin á vinsæla áfangastaði félagsins í Evrópu og Norður-Ameríku.
Vinsælustu borgirnar eru Kaupmannahöfn, London, New York og Boston en auk þess hefur mikil eftirspurn verið á meðal Íslendinga til sólar- og skíðaáfangastaða eins og Tenerife, Alicante, Munchen og Salzburg, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Í vetur mun flugfélagið fljúga að meðaltali sautján sinnum í viku til New York, yfir tuttugu sinnum til London, ellefu sinnum til Boston og tvisvar til þrisvar á dag til Kaupmannahafnar. Með þessu vill félagið auka sveigjanleika hjá viðskiptavinum með fjölbreyttum brottfarartímum innan hvers dags.
Innanlands er flogið til þriggja áfangastaða, Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Eftir að ferðatakmörkunum var aflétt hefur starfsfólk Icelandair lyft grettistaki við uppbyggingu leiðakerfisins. Við kynnum metnaðarfulla flugáætlun í vetur sem er svipuð síðustu vetraráætlun fyrir heimsfaraldur. Svo öflug vetraráætlun sýnir styrk leiðakerfisins og er til marks um sterka eftirspurn á öllum okkar mörkuðum. Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi góðra flugtenginga fyrir eyþjóð eins og Ísland og því er ánægjulegt að geta boðið upp á um 220 brottfarir á viku til 38 áfangastaða víðs vegar um heiminn yfir vetrartímann, auk öflugra tenginga innanlands.“