Heildar greiðslukortavelta í október nam tæpum 104 milljörðum króna og jókst um 10% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Rannsóknarsetur verslunarinnar greinir frá þessu.

Greiðslukortavelta innlendra korta í verslun innanlands í október stóð nánast í stað á milli ára miðað við breytilegt verðlag. „Velta jókst þó á milli ára í stórmörkuðum og dagvöruverslunum, verslunum með heimilisbúnað, bóka, blaða og hljómplötuverslunum og tollfráls verslun jókst um rúm 58%. Aðrir flokkar verslunar drógust saman á milli ára,“ segir í greiningu Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Þar segir jafnframt að greiðslukortavelta erlendra ferðamanna hérlendis í október hafi aukist um 38,4% frá fyrra ári miðað við breytilegt verðlag. Veltan í október sé að raunvirði svipuð því sem hún var í október 2016.

Kortavelta Íslendinga erlendis hafi aldrei verið meiri í septembermánuði en hún var í ár. Erlend kortavelta greiðslukorta sem gefin eru út á Íslandi hafi verið 35,8% hærri, að raunvirði, í september síðastliðnum en hún var í september 2019.