„Ég held að Seðlabankinn hafi nú þónokkuð til síns máls í þessu; Þetta er alveg klárlega eitthvað sem þarf að horfa til og má hafa áhyggjur af eins og sakir standa,“ segir Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri greiningafyrirtækisins Analytica og hagfræðingur um áhyggjur bankans af viðskiptahalla næsta árs.
Góður gangur ferðaþjónustunnar muni hjálpa mikið til í þeim efnum, en samkvæmt spám seðlabankans mun það einfaldlega ekki duga til. Yngvi tekur þó fram að gengisþróun og milliríkjaviðskipti stjórnist af flóknu samspili margra þátta.
Hann segir erfitt að fullyrða að um sé að ræða viðvarandi hliðrun viðskiptajöfnuðar niður á við frá því sem áður var – að draumurinn um „Sviss norðursins“ sé úti eftir 10 samfelld ár af viðskiptaafgangi fyrir faraldurinn – en að sama skapi hafi sú tilgáta sjálf ávallt staðið á brauðfótum.
„Eftir á að hyggja virðist þetta hafa verið óskhyggja fyrst og síðast.“
Stóraukið seljanleikaálag komið í veg fyrir vaxtamun
Ein af hættum þess að hækka stýrivexti í litlu opnu hagkerfi til að kæla það er sú að vaxtamunurinn laði að erlent fjármagn sem þvert á móti kyndi einungis undir enn frekari þenslu, en sú var einmitt þróunin á árunum fyrir hrun eins og margir eflaust muna.
Yngvi bendir hins vegar á að á móti hvatanum til slíkra fjármagnsflutninga í dag myndi vega stóraukið álag erlendrar fjármögnunar íslensku bankanna ofan á ríkisvexti evrulandanna, en það hefur nú margfaldast á árinu eftir myndarlegt stökk síðustu mánuði.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.