Svissneski Seðlabankinn ákvað að lækka stýrivexti um 0,5% í morgun og fóru því meginvextir bankans úr 1% í 0,5%.
Um er að ræða fjórðu vaxtalækkun bankans í röð en hagfræðingar og greiningaraðilar bjuggust við 25 punkta lækkun.
Samkvæmt The Wall Street Journal er bankinn að reyna að draga úr gengishækkunum svissneska frankans til að verja útflytjendur vegna yfirvofandi viðskiptastríðs.
Fjárfestar eru vanir að leita í svissneska franka þegar mikil óvissa ríkir á mörkuðum.
Verðbólga í Sviss hefur hjaðnað hraðar en spár gerðu ráð fyrir og mældist ársverðbólga 0,7% í nóvembermánuði.
Svissneski seðlabankinn var sá fyrsti til að hefja vaxtalækkunarferlið eftir vaxtahækkanir í öllum helstu hagkerfum heimsins.
Bankinn lækkaði vexti um 25 punkta í marsmánuði og fóru meginvextir bankans niður í 1,5%.
Vextirnir hafa verið lækkaðir um 25 punkta á öllum fundum síðan í mars og bjuggust hagfræðingar við sambærilegri lækkun í morgun.
Í tilkynningu frá bankanum segir að töluverð óvissa ríki um efnahagsspá Sviss en utanaðkomandi atburðir séu að valda þeirri óvissu.
Ein leið til að gera svissenska franka minna aðlagandi fyrir fjárfesta er að lækka vexti og hefur gengi frankans gagnvart dal lækkað um 0,37% í morgun.
Eftir lækkunina hefur bankinn ekki mikið svigrúm til frekari lækkana en samkvæmt WSJ hefur bankinn ekki útilokað að setja neikvæða stýrivexti.