Sviss­neski Seðla­bankinn ákvað að lækka stýri­vexti um 0,5% í morgun og fóru því megin­vextir bankans úr 1% í 0,5%.

Um er að ræða fjórðu vaxtalækkun bankans í röð en hag­fræðingar og greiningaraðilar bjuggust við 25 punkta lækkun.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal er bankinn að reyna að draga úr gengis­hækkunum sviss­neska frankans til að verja út­flytj­endur vegna yfir­vofandi við­skipta­stríðs.

Fjár­festar eru vanir að leita í sviss­neska franka þegar mikil óvissa ríkir á mörkuðum.

Verðbólga í Sviss hefur hjaðnað hraðar en spár gerðu ráð fyrir og mældist ár­s­verðbólga 0,7% í nóvember­mánuði.

Sviss­neski seðla­bankinn var sá fyrsti til að hefja vaxtalækkunar­ferlið eftir vaxta­hækkanir í öllum helstu hag­kerfum heimsins.

Bankinn lækkaði vexti um 25 punkta í marsmánuði og fóru megin­vextir bankans niður í 1,5%.

Vextirnir hafa verið lækkaðir um 25 punkta á öllum fundum síðan í mars og bjuggust hag­fræðingar við sam­bæri­legri lækkun í morgun.

Í til­kynningu frá bankanum segir að tölu­verð óvissa ríki um efna­hags­spá Sviss en utan­aðkomandi at­burðir séu að valda þeirri óvissu.

Ein leið til að gera svis­senska franka minna aðlagandi fyrir fjár­festa er að lækka vexti og hefur gengi frankans gagn­vart dal lækkað um 0,37% í morgun.

Eftir lækkunina hefur bankinn ekki mikið svigrúm til frekari lækkana en sam­kvæmt WSJ hefur bankinn ekki úti­lokað að setja neikvæða stýri­vexti.