Svissneska flugfélagið Edelweiss hefur ákveðið að hefja flug til Akureyrar sumarið 2023. Flogið verður milli Zürich í Sviss og Akureyrar á föstudögum frá 7. júlí til 18. ágúst og verða ferðirnar fram og til baka sjö talsins.
Þetta er í fyrsta sinn sem flugfélagið Edelweiss flýgur til Akureyrar en það hefur, síðan 2021, flogið áætlunarflug milli Sviss og Keflavíkurflugvallar. Félagið flýgur með farþega til og frá Akureyrarflugvelli næsta sumar í Airbus A320 þotu sem tekur allt að 174 farþega í sæti.
Edelweiss segir í tilkynningu að Ísland sé einn vinsælasti áfangastaður ferðalanga frá Sviss. Félagið hafi eflt flugleiðina frá Sviss til Keflavíkurflugvallar á síðustu tveimur árum og hafi orðið vart við áhuga ferðafólks á að fara um allt Ísland. Sérstakur áhugi væri á að skoða náttúruna á Norðurlandi.
Edelweiss er nú í vetur komið í hóp heilsársflugfélaga um Keflavíkurflugvöll með þrjár ferðir í viku allan veturinn og fjórar ferðir í viku síðasta sumar.
„Það er okkur mikið ánægjuefni að flugfélagið Edelweiss hafi ákveði að hefja flug til Akureyrar,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla.
„Þetta er afrakstur þess öfluga kynningarstarfs sem Isavia Innanlandsflugvellir, Íslandsstofa, Markaðsstofa Norðurlands og Austurbrú hafa unnið í þéttu samstarfi þar sem áherslan hefur verið á að kynna nýjar gáttir til Íslands. Auk alls þessa hefur aðkoma íslenskra stjórnvalda skipt sköpum. Edelweiss bætist nú í hóp með Niceair og þýska flugfélaginu Condor sem fljúga milli Akureyrar og áfangastaða erlendis. Condor flýgur jafnframt milli Frankfurt og Egilsstaða næsta sumar“