Fjárfestar vestanhafs eru sífellt í auknum mæli að hegða sér með sama hætti og í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016.
Samkvæmt The Wall Street Journal eru margir að veðja á að Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna og eru þeir fjárfestar sem eru sannfærðir í þeirri trú að fara í stöðutökur sem þeir telja að verði arðbærar er Trump tekur við.
Þeir sem höfðu trú á sigri Trump árið 2016 fóru í sambærilegar stöðutökur en samkvæmt WSJ eru litlar vísbendingar um að vonir fjárfesta raungerðust.
Alveg frá ársbyrjun og fram í síðustu viku einkenndu viðskipti með stór tæknifyrirtæki markaðinn vestanhafs.
Allt í einu byrjaði síðan Russel 2000 vísitalan, sem fylgir meðalstórum fyrirtækjum í Bandaríkjunum, að rjúka upp á við. Vísitalan hækkaði um 12% á einni viku um miðjan júlí eftir að hafa staðið nánast óbreytt allt árið.
Á miðvikudaginn varð síðan söguleg markaðssveifla en Russel 2000 vísitalan hefur ekki hækkað jafn mikið umfram Russel 1000 vísitöluna á einum degi frá því að mælingar hófust.
Nasdaq vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, átti á sama tíma sinn versta dag frá því í desember 2022.
Að mati The Wall Street Journal sýnir þetta að fjárfestar séu að veðja á að minni og meðalstór fyrirtæki muni standa sig betur ef Trump verður forseti. Árið 2016 var sama uppi á teningnum og veðjuðu fjárfestar á fjármála-, minni- og meðalstór, og iðnaðarfyrirtæki.
Allir þessir geirar skiluðu þó minni ávöxtun en vonir stóðu til á árunum 2016 til 2022 og leiddu stóru tæknirisarnir hækkanir á markaði.