Fjár­festar vestan­hafs eru sí­fellt í auknum mæli að hegða sér með sama hætti og í að­draganda for­seta­kosninganna árið 2016.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal eru margir að veðja á að Trump verði næsti for­seti Banda­ríkjanna og eru þeir fjár­festar sem eru sann­færðir í þeirri trú að fara í stöðu­tökur sem þeir telja að verði arð­bærar er Trump tekur við.

Þeir sem höfðu trú á sigri Trump árið 2016 fóru í sam­bæri­legar stöðu­tökur en sam­kvæmt WSJ eru litlar vís­bendingar um að vonir fjár­festa raun­gerðust.

Alveg frá árs­byrjun og fram í síðustu viku ein­kenndu við­skipti með stór tækni­fyrir­tæki markaðinn vestan­hafs.

Allt í einu byrjaði síðan Rus­sel 2000 vísi­talan, sem fylgir meðal­stórum fyrir­tækjum í Banda­ríkjunum, að rjúka upp á við. Vísi­talan hækkaði um 12% á einni viku um miðjan júlí eftir að hafa staðið nánast ó­breytt allt árið.

Hreyfingar á Russel 2000 umfram Russel 1000.
Hreyfingar á Russel 2000 umfram Russel 1000.
© Skjáskot (Skjáskot)

Á mið­viku­daginn varð síðan sögu­leg markaðs­sveifla en Rus­sel 2000 vísi­talan hefur ekki hækkað jafn mikið um­fram Rus­sel 1000 vísi­töluna á einum degi frá því að mælingar hófust.

Nas­daq vísi­talan, þar sem tækni­fyrir­tækin eru þunga­miðjan, átti á sama tíma sinn versta dag frá því í desember 2022.

Að mati The Wall Street Journal sýnir þetta að fjár­festar séu að veðja á að minni og meðal­stór fyrir­tæki muni standa sig betur ef Trump verður for­seti. Árið 2016 var sama uppi á teningnum og veðjuðu fjár­festar á fjár­mála-, minni- og meðal­stór, og iðnaðar­fyrir­tæki.

Fjárfestingar í forsetatíð Trump 2016-2020 og ávöxtun.
Fjárfestingar í forsetatíð Trump 2016-2020 og ávöxtun.
© Skjáskot (Skjáskot)

Allir þessir geirar skiluðu þó minni á­vöxtun en vonir stóðu til á árunum 2016 til 2022 og leiddu stóru tækni­risarnir hækkanir á markaði.