Svissneski úrframleiðandinn Swatch Group hefur greint frá samdrætti í sölu á fyrri hluta þessa árs vegna mikils samdráttar í eftirspurn eftir lúxusvörum í Kína. Fyrirtækið býst þá ekki við viðsnúningi á þeim markaði fram að áramótum.
Fréttamiðillinn WSJ greinir frá því í dag að úrsmiðurinn hefði selt úr fyrir 3,85 milljarða dala fyrstu sex mánuði ársins sem er 14% minna en á sama tímabili í fyrra.
Swatch er ekki eina fyrirtækið sem glímir við samdrátt en mörg önnur evrópsk lúxusfyrirtæki hafa staðið frammi fyrir erfiðleikum í Kína en efnahagur landsins er enn að ná sér aftur á strik eftir heimsfaraldur.
Þá hefur pólitíska ástandið í Evrópu einnig haft áhrif á pantanir þar sem margir smásalar óttast að sitja uppi með of miklar birgðir. Samdrátturinn í álfunni í sölu hefur þá verið um 10% en fyrirtækið vonast eftir betri árangri á seinni hluta þessa árs.